Golf Mosfellsbær
Mosfellsbær, Ísland

BREYTINGAR Á RÖFFSLÆTTI Á HLÍÐAVELLI

29.06.2016
BREYTINGAR Á RÖFFSLÆTTI Á HLÍÐAVELLI

Sumarið 2016 langaði okkur til þess að breyta slættinum örlítið á okkar vallarsvæðum bæði með því að lækka slátt næst brautum og einnig hætta alfarið að slá sum svæði lengra frá brautum. Með þessu fæst hagræðing en einnig mun þetta ramma sumar brautir betur inn og því breyta heildarútliti sumra brauta til hins betra. Svo er einnig hægt að nýta karga eða röff til þess að reyna að stýra umferð frá hættusvæðum sem við útskýrum hér seinna.

Svæðin sem við höfum tekið saman eru um 25.000m2 sem myndu gera um 2-3 klst af sparnaði í slætti sem er bæði umhverfisvænna og ódýrara í rekstri. Röffsláttuvélar okkar eru stórar og miklar, eyða mikilli olíu og menga bæði með hávaða og útblæstri og því ætti það að vera jákvætt fyrir okkur sem golfklúbb að vilja minnka það. Aðrir klúbbar í nágrenni við okkur hafa einnig sett upp svipaða stefnu eins og t.d. GK og GKG en þeir hafa minnkað slátt töluvert. Annað gott dæmi um þetta er t.a.m. Konunglegi golfklúbburinn í Kaupmannahöfn (Royal Golf Club Cobenhagen). Önnur dæmi um umhverfisvæna stefnu eru vellir sem nota sauðfé og annan búfénað til þess að „slá“ ákveðin svæði fyrir sig.

Á þessari yfirlitsmynd hér fyrir neðan má sjá nokkur svæði sem mætti minnka eða hætta að slá. Horft er yfir brautir 2,3,4,13,14,15,16 og einnig sést í 12 flöt.

Þriðja braut er stutt par 4 hola með lítið sem engum hættum fyrir utan tvo trjálundi hægra megin við brautina. Þetta gerir það að verkum að meginþorri kylfinga slær til vinstri í átt að 13 braut sem eykur hættuna á því að kylfingar fái kúlu í sig frá þeirri braut þegar upphafshögg er slegið þaðan. Svo til þess að auka líkurnar á því að kylfingar spili frekar upp miðja braut þá þarf að setja inn einhverja hættur vinstra megin sem við gætum gert með hærri karga á völdum svæðum, gróðursetningu eða með glompum. Í þessari atrennu myndum við þó líklegast einblína á betri og högglengri kylfinga sem slá yfirleitt bara eins langt og þeir geta og þá upp vinstri kant brautar í átt að vetrarflöt og hætta að slá kargann fyrir neðan vetrarflötina. Þetta myndi þá fá þá suma til að hugsa aðeins áður en þeir rífa upp „dræverinn“.

4 braut er líka stutt par 4 hola þar sem högglengri kylfingar bíða jafnan eftir flötinni í upphafshögginu. Þessi hola er æðisleg hola að því leyti að hún er svokölluð „risk – reward“ hola. Þ.e.a.s. að verðlaunin fyrir gott högg er að hitta flötina en hins vegar ef það klikkar þá ertu yfirleitt í vondum málum. Þetta hefur hins vegar ekki alveg verið raunin því að ef menn slá nógu slæmt högg og „slæsa“ boltann til hægri þá lenda þeir oftar en ekki á fínum nýslegnum stað rétt við flötina hinum megin við lækinn. Þessu viljum við breyta og hætta slætti á þessu svæði sem er rauðmerkt á kortinu. Þetta svæði er vel útfyrir braut og langt utan leiklínu en myndi fá kylfinga sem reyna við flöt í upphafshöggi til þess að hugsa sig aðeins um. Hitt svæðið á brautinni nær teigunum er mjög gisið og vex lítið sem ekkert og myndi ekki hafa nein áhrif á leik.

Þessi tvö dæmi gefa mynda af því hvernig við hugsum út svæðin sem hægt er að hætta að slá. Þ.e. reyna að lágmarka slátt án þess að það trufli leik hjá meðal kylfingi en að sama skapi að reyna að stýra umferð og gera sumar brautir meira krefjandi fyrir betri spilara. Að sama skapi ætlum við að reyna að lækka sláttuhæð á stærra svæði í umhverfis brautir þar sem það á við. Þetta eru aðallega lítil svæði um allan völl sem eins og áður sagði ættu ekki að hafa mikil áhrif á spil en hafa mikil áhrif á sláttutíma þegar allt er lagt saman.

Í Bakkakoti hefur þetta nú þegar verið gert á nokkrum völdum svæðum eins og á milli 3,7 & 8 brautar og svæði vinstra megin við 5 braut og skilað góðum árangri. Þar munum við hafa augun opin fyrir frekari hagræðingu þó með það í huga að trufla leik sem allra minnst.