Golf Mosfellsbær
Mosfellsbær, Ísland

FRÁBÆR ÁRANGUR Í ÍSLANDSMÓTI GOLFKLÚBBA

15.08.2016
FRÁBÆR ÁRANGUR Í ÍSLANDSMÓTI GOLFKLÚBBA

Um helgina var leikið í Íslandsmóti golfklúbba í flokkum unglinga og eldri kylfinga. Við hjá GM sendum 7 sveitir til leiks, 5 í unglingaflokkum og 2 hjá eldri kylfingum. Frábær árangur var hjá okkar fólki og stóðu allar sveitir sig vel.

Öldungasveit kvenna lék í efstu deild í Öndverðanesi. Eftir frekar erfiða byrjun sýndu þær styrk sinn og héldu sæti sínu í 1. deild eftir góðan sigur í lokaleik sínum. Þær höfnuðu að lokum í 5. - 6. sæti.

Öldungasveit karla lék í 2. deild í Kiðjabergi eftir sigur í 3. deild síðasta sumar. Drengirnir byrjuðu erfiðlega en eftir tap í fyrsta leik vannst glæsilegur sigur í næstu 4 leikjum. GM sigraði því glæsilega í 2. deild karla og eru því komnir upp um tvær deildir á tveimur árum. Frábær árangur!

Í stúlknaflokki voru í fyrsta sinn sendar tvær sveitir til þátttöku. Yngri sveitin keppti í flokki 15 ára og yngri og stóð sig afskaplega vel. Þar voru þær flestar að stíga sín fyrstu skref í Íslandsmóti golfklúbba og eru reynslunni ríkari. Þær léku vel og höfnuðu í 6. sæti af alls 8 liðum.

Stúlknasveit GM í flokki 18 ára og yngri fór inn í mótið með háleit markmið. Þær ætluðu sér sigur og lögðu hart að sér. Eftir æsispennandi úrslitaleik við GR vannst að lokum 2-1 sigur og gullið staðreynd. Glæsilegt hjá stúlkunum okkar og óskum við þeim innilega til hamingju með frábæran árangur.

Sveit drengja 18 ára og yngri hafnaði í 4. sæti eftir spennandi keppni. Í undanúrslitum réðust úrslit ekki fyrr en á síðustu holu en það oft lítið sem skilur á milli.

Í flokki 15 ára og yngri drengja voru sendar tvær sveitir til leiks eins og undanfarin ár. Báðar sveitir léku gott golf og höfnuðu sveitirnar í 3. og 13. sæti af 20 sveitum. Eldri sveitin lék æsispennandi undanúrslitaleik þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en á 5. holu í bráðabana.

Glæsilegur árangur hjá okkar fólki og voru allir sér og klúbbnum til mikils sóma.

Áfram GM!