Golf Mosfellsbær
Mosfellsbær, Ísland

VETRARLOKUN Á VALLARSVÆÐUM

02.11.2017
VETRARLOKUN Á VALLARSVÆÐUM

Golfsumarið 2017 er búið að vera gott og höfum við fengið virkilega gott haust til golfiðkunar, það kemur þó alltaf að því að veturinn láti vita af sér, hitatölur eru farnar að lækka verulega og farnar að vera leiðinlega nálægt núllinu. Þetta þýðir það að vallarsvæðin okkar eru að fara loka. Föstudaginn 3. nóvember munum við loka sumarvellinum á Hlíðavelli og færa okkur yfir í vetrargolfið. Bakkakot lokar sama dag fyrir allri umferð. Vellirnir líta vel út og eru vel tilbúnir fyrir veturinn. Við munum þó halda áfram að vinna í flötum næstu vikur með götun og söndum sem loka vetrarundirbúningur.

Vetraspil á Hlíðavelli:

Hlíðavöllur mun verða opinn í allan vetur inn á vetrarflatir og viljum við hvetja félagsmenn til að nýta sér það. Þó er mikilvægt í vetrargolfinu að virða þær lokanir sem í gildi eru eins og að slá bara af merktum teigum og fylgja spottum sem lagðir hafa verið til að hlífa viðkvæmum svæðum.

Afhverju vetrarlokun?

Ástæðan fyrir því að við lokum völlunum annaðhvort alveg að að hluta er sú að yfir köldustu og dimmustu mánuðina er grasplantan komin i dvala og hefur í raun engin ráð til að verja sig gegn átroðningi. Eina sem hægt er að gera er að undirbúa plöntuna vel fyrir veturinn með áburðargjöf og reyna að hafa aðstæður sem hægstæðastar svo að grasið fari í sem heilbrigðustu og sterkustu ástandi inn í veturinn. Með því móti ætti plantan að geta staðið af sér þær erfiðu veðuraðstæður sem eru á þessum tíma. Með auknu álagi eins og t.d. golfspili erum við alltaf að reyna meira á varnir plöntunar og tekur hún meira af sínum forða til að komast í gegnum veturinn. Því viljum við skapa plöntunni allt það svigrúm sem við getum til að hún komist sem auðveldast i gegnum veturinn og verði þar af leiðandi mun sterkari og heilbrigðari þegar vora tekur og við getum þá byrjað að spila golf við sem bestar aðstæður snemma næsta vor.