Golf Mosfellsbær
Mosfellsbær, Ísland

LOKAHÓF OG UPPSKERUHÁTÍÐ GM 2017

11.09.2017
LOKAHÓF OG UPPSKERUHÁTÍÐ GM 2017

Lokahóf og uppskeruhátíð Golfklúbbs Mosfellsbæjar verður haldið laugardagskvöldið 30. september næstkomandi og að þessu sinni verður það vitaskuld haldið í fyrsta skipti í okkar nýju glæsilegu húskynnum í Kletti. Lokahófið hefur verið haldið síðustu 2 ár að hausti samhliða Bændaglímuni og hefur vaxið bæði að umsvifum og fjölda félagsmanna. Nú er komið að því að stíga síðasta skrefið í að gera kvöldið að föstum punkti í félagsstarfi klúbbsins í nýrri félagsaðstöðu GM í Kletti!

Mikið verður um dýrðir þetta kvöld en boðið verður upp á 3 rétta mat og skemmtiatriði. Miði á lokahófið kostar 4.900 kr. en innifalið í honum er 3 rétta kvöldverður með aðalréttinum í hlaðborði en Joost hefur smíðað frábæran matseðil fyrir kvöldið sem má sjá hérna að neðan. Veislustjóri kvöldsins er okkar eigin Rikki G en honum til halds og traust verða ýmsir félagsmenn. Trúbadorinn Eiríkur Hafdal mun sjá um tónlist yfir borðhaldi og eftir verðlaunaafhendingu en það er síðan DJ Fox sem mun leiða mannskapinn inn í nóttina. Húsið opnar kl. 19.00 en borðhald hefst kl. 20.00. Rétt er að taka fram að eftir kl. 22.00 er 18 ára aldurstakmark.

Dagskrá kvöldsins er sem hér segir:

  • 19.00 Húsið opnar
  • 20.00 Borðhald
  • 21.00 Verðlaunaafhending

Á lokahófinu verða veitt verðlaun fyrir þær keppnir sem haldnar hafa verið í sumar. Má þar nefna verðlaun fyrir VÍKINGdeildina, Titleist holukeppnina og 66° listann – Stigalista félagsmanna. Einnig verða veitt verðlaun fyrir afrek sumarsins, högg ársins, félagsmann ársins, Framfarabikarinn, kylfinga ársins og ásamt því að sigurlið Bændaglímu GM árið 2017 einnig heiðrað. Flutt verður sigurræða sigurvegara úrslitaleiks kynjanna en þar leika sigurvegari Titleist holukeppni karla og kvenna og skera úr um hvort kynið er sterkara þetta árið.

Þeir sem komu á lokahóf Meistaramótsins í júlí fengu að upplifa hreint út sagt frábæra stemmingu í okkar nýju stórglæsilegu aðstöðu í Kletti. Stemmingin verður vonandi ekki mikið síðri á Lokahófinu enda miklu að fagna í starfi klúbbsins þetta sumarið.

Miðasala á Uppskeruhátíðina er hafin en miðar eru seldir í afgreiðslunum á Hlíðavelli og í Bakkakoti. Einungis 150 miðar eru í boði og verður miðasala í gangi til miðvikudagsins 27. september.


Matseðill

Forréttur:

Nauta carpaccio með sítrónu og klettasalatpestó

Heimabakað brauð og smjör

Aðalréttarhlaðborð:

Heilsteikt nautafillet og kalkúnabringa transerað á staðnum

Steiktar kartöflur í baconsmjör.

Ferskt salat með vatnsmelónur ,rucola,fetaostur og balsamic dressingu.

Salat með granateplum og appelsínum.

Trufflu-bernaise sósa

Rjómalöguð piparsósa

Eftirréttur:

3ja Laga súkkulaðifrauð með bláberja sósu