Golf Mosfellsbær
Mosfellsbær, Ísland

AÐALFUNDI LOKIÐ - ENDURFJÁRMÖGNUN SAMÞYKKT OG NÝR FRAMKVÆMDASTJÓRI KYNNTUR

04.12.2019
AÐALFUNDI LOKIÐ - ENDURFJÁRMÖGNUN SAMÞYKKT OG NÝR FRAMKVÆMDASTJÓRI KYNNTUR

Aðalfundur Golfklúbbs Mosfellsbæjar fyrir starfsárið 2018-2019 fór fram í gær, 3. desember í Kletti og var vel mætt. Stærsta mál fundarins var endurfjármögnun golfklúbbsins.

Stjórn félagsins hefur unnið að endurfjármögnun klúbbsins á umliðnu ári í samvinnu við Mosfellsbæ og Landsbankann. Niðurstaða þeirra vinnu er einkum tvíþætt; í fyrsta lagi skuldbreytingar á núverandi lánum og hins vegar sala á neðri hæð íþróttamiðstöðvarinnar Kletts. Óskað var eftir heimild fundarins til að ljúka þríhliða samningi við Mosfellsbæ og Landsbanka til að styrkja rekstrargrundvöll klúbbsins og var þetta samþykkt samhljóða.

Samkomulagið felur í sér kaup Mosfellsbæjar á neðri hæð íþróttamiðstöðvarinnar þar sem söluverðmætið verður nýtt til niðurgreiðslu á skuldum klúbbsins. Einnig felur samkomulagið í sér að Mosfellsbær fullklárar neðri hæð Kletts. Golfklúbbur Mosfellsbæjar getur því gengið frá skuldum sínum við verktaka og byrgja og sér klúbburinn því svo sannarlega fram á bjarta tíma á komandi árum.

Á fundinum var Ágúst Jensson kynntur sem nýr framkvæmdastjóri og hefur hann nú þegar hafið störf. Ágúst hefur meðal annars starfað sem yfirvallarstjóri GR, framkvæmdastjóri GA og nú síðasts vallarstjóri á St. Leon-Rot golfvellinum í Þýskalandi. Við bjóðum hann velkominn til starfa í Golfklúbbi Mosfellsbæjar.


Ágúst Jensson