Golf Mosfellsbær
Mosfellsbær, Ísland

ARNA RÚN OG BJÖRN ÓSKAR KYLFINGAR ÁRSINS

14.11.2018
ARNA RÚN OG BJÖRN ÓSKAR KYLFINGAR ÁRSINS

Árshátíð Golfklúbbs Mosfellsbæjar fór fram laugardaginn 3. nóvember í íþróttamiðstöðinni Kletti. Um 120 félagsmenn mættu og áttu góða kvöldstund. Kvöldið var einnig uppskeruhátíð og lokahóf fyrir kylfinga og voru veitt verðlaun fyrir helstu innanfélagsmót sumarsins, auk þess sem framfarabikarinn fékk nýtt heimili og félagsmaður ársins var heiðraður.

GM heiðraði kylfinga ársins karla- og kvenna, en að þessu sinni voru báðir kylfingarnir í háskólagolfi í Bandaríkjunum. Arna Rún Kristjánsdóttir hlaut titilinn kylfingur ársins kvenna, en hún hefur leikið fyrir hönd GM í áraraðir. Arna Rún vann fyrsta mót Eimskipsmótaraðarinnar í sumar, en á mótaröðinni leika margir af bestu kylfingum landsins. Hún samdi við Grand Valley State háskólann og hóf nám í haust.

Björn Óskar Guðjónsson var valinn kylfingur ársins karla, en hann hafnaði til að mynda í öðru sæti á Íslandsmótinu í höggleik þar sem hann lék frábært golf. Björn Óskar hefur einnig leikið með A-landsliði karla á árinu og keppti með karlalandsliðinu á EM. Hann er staddur við nám við University of Louisiana - Lafayette og er á öðru ári í náminu. Björn hefur einnig staðið sig vel í háskólagolfinu. Björn hefur hreppt titilinn kylfingur ársins karla tvö ár í röð.

Kylfingar ársins hafa bæði verið í klúbbnum frá því þau byrjuðu að stunda golf og eru klúbbnum ávallt til sóma.