Golf Mosfellsbær
Mosfellsbær, Ísland

Aðalfundur GM - framboð til stjórnar

14.11.2024
Aðalfundur GM - framboð til stjórnar

Ágætu GM félagar.

Aðalfundur Golfklúbbs Mosfellsbæjar 2024 verður haldinn mánudaginn 2. desember næstkomandi í íþróttamiðstöðinni Klett.

Fundurinn hefst stundvíslega kl. 20:00 og er dagskrá hans sem hér segir:

1. Kosning fundarstjóra og fundaritara.

2. Skýrsla stjórnar um störf og framkvæmdir á vegum félagsins

3. Áritaðir reikningar kynntir

4. Umræður um skýrslu stjórnar og reikningar lagðir fram til samþykktar

5. Lagabreytingar

6. Rekstraráætlun komandi starfsárs kynnt

7. Ákvörðun félagsgjalda

8. Kosning stjórnar, formanns og tveggja skoðunarmanna reikninga

9. Kosning aganefndar og kjörnefndar

10. Önnur mál.

Við minnum einnig á að samkvæmt lögum félagsins þarf framboð til stjórnar, varastjórnar og formanns að berast fyrir til klúbbsins fyrir 15. nóvember. Hafir þú áhuga á því að bjóða þig fram biðjum við þig vinsamlegast um að senda tilkynningu þess efnis á golfmos@golfmos.is.

8. gr.
Stjórn félagsins og framkvæmdastjóri

Hlutverk stjórnarinnar er að framfylgja stefnumiðum félagsins eins og þau koma fyrir í 1. grein laganna.

Stjórn félagsins skal skipuð sjö mönnum, sem kosnir eru á aðalfundi. Sex eru kosnir til tveggja ára í senn, þrír í hvert sinn, en formann félagsins skal kjósa sérstaklega til eins árs í senn. Á aðalfundi skal jafnframt kjósa fjóra varamenn til eins árs í senn.Stjórnin skiptir með sér verkum. Ef þrír varamenn taka sæti í stjórn á milli aðalfunda, er kjörnefnd heimilt að leggja til boðun félagsfundar til að kjósa nýja varamenn.

Á aðalfundi skal kjósa þrjá félagsmenn í kjörnefnd til að annast framkvæmd kjörs til stjórnar félagsins á næsta aðalfundi. Framboð til formanns-, stjórnar- og varastjórnarkjörs skulu berast nefndinni fyrir 15. nóvember sent á netfang er birt skal á vefsíðu félagsins. Ef framboð til stjórnarsetu eru fleiri en þau sæti sem kjósa á um skal kjörnefnd hafa umsjón með kosningu milli frambjóðenda á aðalfundi og sjá til þess að framboð séu kynnt félagsmönnum fyrir aðalfund. Skal kjörnefnd gæta þess að jafnræði ríki við kynningu á frambjóðendum. Kjörnefnd getur án tillits til framboðsfrests hlutast til um að afla framboða frá félagsmönnum. Í störfum sínum skal kjörnefnd miða að því að í stjórn félagsins sitji hæfir einstaklingar af hvoru kyni og að hluti stjórnarmanna hafi reynslu af störfum fyrir félagið og þekkingu á starfsemi þess.
Kjörgengir sem stjórnarmenn eru allir atkvæðisbærir félagsmenn nema fastráðnir starfsmenn félagsins.
Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur félagsins og skal í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem félagsstjórn hefur gefið. Hinn daglegi rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Slíkar ráðstafanir getur framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá félagsstjórn.

Lög Golfklúbbs Mosfellsbæjar