Golf Mosfellsbær
Mosfellsbær, Ísland

Ávallt mikið um að vera hjá eldri kylfingum í GM

06.03.2025
Ávallt mikið um að vera hjá eldri kylfingum í GM

AÐALFUNDUR GM 65+ 2025 og þriggja ára afmælishátíð

Kæru félagar

GM 65+ SNILLINGAR GANGA SANNARLEGA INN Í NÝTT GOLFÁR MEÐ FÖGNUÐ Í HJARTA.

Þegar við í 65+ nefndinni lítum til síðustu þriggja ára er óhætt að segja að hjörtu okkar fyllist gleði, stolti og bjartsýni sem við tökum með okkur inn í fjórða starfsár okkar 2025.

Eins og fyrri ár stendur nefndin fyrir fjölbreyttum viðburðum alla miðvikudagsmorgna og fylgir þannig markmiði klúbbsins um að efla og byggja upp góða félagstengingu og um leið stuðla að bættri andlegri og líkamlegri heilsu eldri félagsmanna GM.

Það er óhætt að segja að þátttaka í viðburðum GM 65+ snillinga hafi heldur betur vaxið á þessum tíma og telur til dæmis FB síða hópsins nú 340 meðlimi. Þar af mæta að meðaltali um 70 til 80 manns á hvern viðburð, enda dagskráin vönduð og viðburðarík. Fjölgunin í vetur segir okkur að yngri klúbbmeðlimir GM flýta sér að eldast til að komast í 65+ hópinn og við hin sem hér erum lifum lengur því það er svo skemmtilegt hjá okkur.

Þessari miklu fjölgun í hópnum fylgdi að við sprengdum utan af okkur salinn á neðri hæðinni og þurftum að flytja samveru og viðburði upp í Bliksalinn.

Við þurftum einnig að grípa til þess ráðs að stjórna umferðinni og minnka biðtíma með því að taka í notkun litaspjöld og stöðvarkerfi. Allir fá nú litaspjald við komu sem segir til um tíma og á hvaða vinnustöð hver og einn á að fara.

Um er að ræða fasta dagskráliði sem eru: púttmót, lengdarmót í golfhermum í 15 mínútur, fettur og brettur, létt morgunleikfimi í 30 mínútur og golfhermakennsla. Nýja kerfið hefur náð tilætluðum árangri og fólk virðist almennt ánægt með breytinguna … það er að segja eftir nokkur skipti, svona þegar skipulagið var komið inn „vanakerfið“.

Vetrardagskráin er vönduð og fjölbreytt að vanda. Auk fastra liða stöðvakerfisins settum við inn sameiginlegan tíma í sal frá klukkan 10 til 11.Þennan tíma notum við til samveru þar sem við meðal annars spilum félagsvist, höfum jóla- og páskabingó, förum í samskiptaleiki eða vinnum hugmynda- og verkefnavinnu.

Auk þessa hefur nefndin lagt mikla áherslu á að bjóða reglulega upp á fræðsluerindi teng golfi og lýðheilsu eldri borgara.

Við veljum ákveðið þema fyrir hverja önn og vorum t.d. með á síðasta ári flotta fyrirlestra um geðheilsu, hamingjuleit og fjármál eldri borgara, þar með talið erfðamál og greiðslur frá TR.

Á nýja árinu höldum við áfram að beina sjónum að heilsunni og fáum til okkar sérfræðinga á sviði öldrunar sem öll starfa á Minnismóttökunni á Landakoti. Sérfræðingur í öldrunarlækningum kom í janúar og talaði um Alzheimer, minnistap, meðferð og forvarnir og nú í mars koma Dr. í sjúkraþjálfun aldraðra og hjúkrunarfræðingur og fjalla um byltuvarnir og jafnvægisþjálfun.

Við nýtum okkur einnig frábæra fyrirlesara úr okkar röðum og má nefna mjög svo áhugavert erindi Eiríks Þorlákssonar um „Móralska myndlist“, hugsanlega ekki efni beint tengt golfi en svo sannarlega nærandi fyrir huga og sál.

Þegar vora tekur munum við njóta góðs af kunnáttu okkar frábæra starfsfólks í GM sem mun eins og undanfarin ár koma og fræða okkur um meðal annars hönnun og gerð golfvalla, gras og hindranir á brautum áður en golfkennararnir mæta með kylfurnar á lofti og fara yfir öll helstu atriði sem muna þarf áður en haldið er inn í golfsumarið.

Áður en veturinn er kvaddur er vert að minnast á rómaða ferð 78 snillinga sem farin var í Minigarðinn í janúar þar sem við spiluðum saman í hollum, kepptum í mínigolfi og gæddum okkur á gómsætu pizzahlaðborði að leik loknum. Mikil gleði og ánægja var í hópnum með þessa „unglingaferð“ og verður önnur ferð að sjálfsögðu sett á dagskrá aftur á nýju starfsári.

Á sumarmánuðum notðum við að vanda annan hvern miðvikudag til keppni í mótaröð GM 65+ snillinga meðan aðrir miðvikudagar voru notaðir í leiki á heimavöllum eða farið í vinaferðir á nágrannavelli. Mikil ánægja hefur verið með þetta fyrirkomulagi og munum við því halda áfram á sömu braut í sumar.

Vinamót GKG og GM 65+ fór fram í annað sinn á síðasta ári og var sérlega vel heppnað að mati GM snillinga sem unnu bikarinn í hús. Vinamót klúbbanna þar sem spilað er heima og heiman er komið sem fastur liður á sumardagskránna enda fullbókað á báðum stöðum og má nefna að á Hlíðavelli voru 94 ræstir út af öllum teigum í einu og komust færri að en vildu.

Sumarið endaði með „Ömmu- og afadegi“ í Bakkakoti þegar 65+ snillingarnir buðu barnabörnum og yngri kylfingum GM að spila saman og mæta í grillpartýi eftir hring. Þetta var í annað skipti sem við stöndum fyrir slíkum degi … og svo vel hefur tekist til að allir sem einn óska eftir að viðburðurinn verði fastur liður ár hvert enda mikil gleði og ánægja í lofti þennan dag.

Við leggjum mikla áherslu á að styðja við og byggja upp góð tengsl við barna- og unglingastarf GM. Þetta sýndum við í verki á jólahátíð GM 65+ snillinga þegar foreldraráð klúbbsins tók á móti 100.000 kr. „Ömmu og afa styrk“.

Ömmu- og afadagar ásamt styrknum er okkar leið til að styðja við uppbyggingu barna- og unglingastarfs GM og liður í markmiði okkar að byggja brú milli kynslóða í Golfklúbbi Mosfellsbæjar.

Hápunktur síðasta árs var vel heppnuð utanlandsferð GM 65+ snillinga til Costa Ballena. Þangað mættu 55 sprækir snillingar og voru þeirra elstir nær níræðu. Svo mikil gleði og samstaða var í hópnum að eftir var tekið og óhætt að segja að hópurinn hafi verið klúbbnum til mikils sóma. Að sjálfsögðu er ný golfferð GM 65+ snillinga aftur á dagskrá haustið 2025 og eru að þessu sinni 80 GM 65+ snillingar á leið til VALLE DEL ESTE á Spáni í október.

En áður en haustið kemur eigum við eftir að fara í nokkrar vinaferðir á nærliggjandi golfvelli. Við byrjum að venju á ferð til Þorlákshafnar í maí þar sem við höldum stórt „Pálínuboð“ að leik loknum. Í júní heimsækjum við Kiðjaberg sem er nýr áfangastaður eins og ferð til Vestmannaeyja sem er á dagskrá í júlí, og endum svo vinaferðaflakk að venju með pizzahlaðborði á Flúðum.

Ferðin til Vestmannaeyja er með nýju sniði þar sem GM 65+ býður upp á rútuferð til Eyja fyrir þá sem vilja. GM 65+ sjóðurinn greiðir rútuna enda ætlaður meðal annars til að greiða niður dýrari ferðir og viðburði.

Mikil gleði og þakklæti eru hjörtum okkar sem störfum í GM 65+ nefndinni. Þakklæti til klúbbsins, skrifstofufólks og þjálfara sem hafa stutt við bakið á okkur, verið okkur innan handar nánast hvenær sem er og eru okkar leiðarljós áfram veginn.

Þið snillingar hafið einnig lagt ykkar að mörkum til að vel gangi. Á vinnu- og hugmyndadegi ykkar lögðuð þið fram óskir og tillögur um úrbætur á dagskrá okkar. Að sjálfsögðu tókum við tillögurnar til skoðunar og unnum að úrbótum þar sem því var við komið og hefur nefndin lokið framkvæmdum tuttugu og tveggja tillagna af tuttugu og þremur.

Að lokum viljum við þakka okkar flottu 65+ snillingum fyrir frábæra þátttöku og stuðning. Það er ekki sjálfgefið að svo stór hópur nái að mynda slíka einingu og vináttu sem við upplifum í GM 65+ og …

hver veit nema gildi okkar og leiðarljós séu grunnsteinn þessa:

1.Virðing

2.Umburðarlyndi

3.Hjálpsemi

4.HÚMOR OG GLEÐI

NÝ GM 65+ NEFND KOSIN

Hrefna Birgitta Bjarnadóttir formaður

Hrafn Stefánsson varaformaður (nýr)

Ingveldur Bragadóttir ritari

Páll Eyvindsson gjaldkeri

Gunnhildur Magnúsdóttir meðstjórnandi

Snorri Hlíðbergmeðstjórnandi og mótastjóri

Helgi Pálsson meðstjórnandi

Ásmundur Ólafsson meðstjórnandi

Elísabet Guðmundsdóttir meðstjórnandi (ný)

Guðmundur Pétursson meðstjórnandi (ný)

Sonja Ingibjörg Einarsdóttir meðstjórnandi og skemmtanastjóri (ný)

Við bjóðum nýja nefndarmenn velkomna til starfa um leið og við þökkum fráfarandi nefndarmönnum; Þórdísi Arthúrsdóttur, Sigurði Geirssyni og Svanbergi Guðmundssyni fyrir vel unnið og óeigingjarnt starf við uppbyggingu GM 65+ starfsins.

Með ósk um gleðilegt og farsælt golfár.

Hrefna Birgitta Bjarnadóttir, formaður GM 65+.