Golf Mosfellsbær
Mosfellsbær, Ísland

FYRSTU LEIKIR BÆNDAGLÍMUNNAR

09.09.2019
FYRSTU LEIKIR BÆNDAGLÍMUNNAR

Bændurnir í Bændaglímu GM 2019 eru Rafn (Rabbi) Jóhannesson fyrir rauða liðið og Guðleifur Kristinn (Kiddi) Stefánsson fyrir bláa liðið. Bændurnir eru búnir að velja leikmenn í sín lið í fyrstu tvo leikina og rökstuddu valið sitt.

LEIKUR 1

RABBI

Fyrsta nafn á listann hjá mér er liðsfélagi minn úr Viking deildinni Harpa Sigurbjörnsdóttir. Ég sá í þeirri keppni hversu mikill keppnismaður hún er og er hún akkúrat týpan af leikmanni sem ég vil í rauða liðið. Hún fór alla leið í úrslit í Titleist holukeppninni í ár og er í stöðugri framför sem golfari. Ég hef séð hana sparka niður lítið barn í fótboltakeppni foreldra og iðkenda hjá Aftureldingu þannig að ég veit hún gerir allt til að vinna (hún heldur því reyndar fram að þetta hafi verið óviljaverk). Auk þess veit ég að henni er meinilla við fyrirliða bláa liðsins og mun gera allt sem í hennar valdi stendur til að tryggja það að hann fagni ekki í lok dags.

Með Hörpu mun leika ræsirinn síkáti Viðar Sveinbjörnsson. Viddi þekkir völlinn út og inn og þar sem hann er einn af stjórnendum vetrargolfsins í klúbbnum veit ég að þar er maður sem getur spilað við hvaða aðstæður sem er. Ég spilaði hring með honum síðsumars og sá þá að hann er í góðu formi innan sem utan vallar. Viddi og Harpa munu verða Rush/Dalglish rauða liðsins og skila öruggum þremur punktum í hús.

KIDDI

Ég átti fyrsta val og var að velta því fyrir mér svona upp á hjónabandið hvort ég ætti ekki að velja frúnna. Rabbi hafði þá samband við mig og tilkynnir mér að hún væri hans fyrsta val. Þegar hann bauð mér einn kassa af bjór ef ég myndi ekki velja hana, þá þurfti ég ekki að hugsa mig tvisvar um og gaf hana eftir. Ég var nú ekki lengi að leysa þann hausverk og valdi "viðhaldið" mitt eða systur hennar Kötlu Sigurbjörnsdóttur sem mitt fyrsta val. Þegar kom að því að velja makker fyrir hana þá var ég ekki lengi að finna út úr því. Þórhallur Kristvinsson var fyrir valinu þar sem að hann er einstaklega góður golfari og mun sjá til þess að hollið hafi gaman meðan ég er ekki á svæðinu.

Harpa Sigurbjörnsdóttir og Viðar Sveinbjörnsson munu því mæta Kötlu Sigurbjörnsdóttur og Þórhalli Kristvinssyni.

LEIKUR 2

RABBI

Guðmundur Jón Tómasson er næsti maður á blað hjá rauða liðinu.Hann er nýbyrjaður að stunda golfíþróttina aftur eftir að hafa brunað um hjólastíga landsins síðustu ár og hefur aldrei verið ferskari en nú.Ég treysti því að Gummi skili betra verki fyrir rauða liðið heldur en ég gerði þegar við unnum saman í bæjarvinnunni fyrir u.þ.b. 30 árum síðan.

Með Gumma mun leika annar liðsfélagi minn úr Víking deildinni Kristín Inga Guðmundsdóttir. Kafteinn Kristín leiddi liðið okkar taplaust upp úr riðlakeppninni og munu leiðtogahæfileikar hennar nýtast vel í rauða liðinu. Reynsla hennar úr kennslustörfum mun svo koma sér vel ef Gummi fer eitthvað út af sporinu. Hef fulla trú á að samstarf þeirra skili þremur punktum í rauða kofann.

KIDDI

Rabbi átti valið og valdi hann Gumma sem hefði örugglega valið mitt lið ef hann hefði val en því miður fyrir hann þá fær maður ekki allt í lífinu. Ég var ekki lengi að tækla þetta og valdi að sjálfsögðu betri helminginn á heimilinu hans Gumma og Hlín Hlöðversdóttir fær heiðurinn að klæðast bláu. Makkerinn hennar verður enginn annar en Heiðar Númi Hrafnsson yfirleitt kallaður herra Dressmann, hann hefur spilað eins og engill í allt sumar og er loksins orðinn betri en ég í golfi eins og er. Ég er full viss um að þetta combo sé stórhættulegt fyrir rauða liðið og verður leikur einn fyrir þau bláu.

Guðmundur Jón og Kristín Inga mæta því Hlín Hlöðversdóttur og Heiðari Núma Hrafnssyni.

Allir leikir Bændaglímu GM 2019 verða tilkynntir á næstu dögum.