Golf Mosfellsbær
Mosfellsbær, Ísland

Bakkakot opnar - fréttir af okkar golfvöllum

11.05.2023
Bakkakot opnar - fréttir af okkar golfvöllum

Ágætu GM félagar.

Tekin hefur verið ákvörðun um að opna golfvöllinn í Bakkakoti næstkomandi laugardag 13. maí.

Veturinn sem nú er vonandi búinn að kveðja okkur var mjög sérstakur og hefur gert okkur talsvert erfitt fyrir þar sem þetta hefur allt farið frekar rólega af stað hjá okkur. Veturinn hefur verið mjög óvenjulegur að því leitinu til að það var umtalsvert frost á bera jörð. Það hefur þær afleiðingar í för með sér að frostið nær umtalsvert djúpt ofan í jörðu auk þess sem grasplantan getur hreinlega drepist þegar frost fer niður í allt að 13 -15 gráður.

Nú er það svo að ólíkt undanförnum árum að Bakkakotið kemur mun betur undan vetri og er talsvert fyrr til heldur en Hlíðavöllur. Þar lá meiri snjór á jörðu, meira skjól fyrir kaldri norðanátt og meiri raki í öllu svæðinu og er staðan þar góð. Einhverjir teigar eru illa farnir en við gefum þeim aðeins meiri tími og þá koma þeir vonandi fljótlega til.

Við ætlum því að opna Bakkakotið núna á laugardaginn og munum við opna fyrir bókanir í golfboxinu kl. 12:00 í dag fimmtudaginn 11. maí. Til að byrja með verður völlurinn eingöngu opinn fyrir GM félaga.

Hlíðavöllur er aðeins á eftir og við getum við miður ekki opnað hann um helgina. Það má segja það að Hlíðavöllur sé á svipuðum stað og hann er í "venjulegu" árferði ef það væri ca 20. apríl. Það jákvæða er að það virðist ekki vera mikið um það að gras hafi hreinlega drepist hjá okkur og er það virkilega jákvætt. Nýgræðlingur í kringum nýju fjórðu flötina okkar fór talsvert illa, auk þess sem hluti gula teigsins á 6. braut er illa farinn. Annað lítur bara heilt yfir nokkuð vel út, það vantar bara meiri gróanda. Flatirnar á seinni níu eru talsvert lengra komnar og höfum við sett dúka á fjórar flatir á fyrri níu holunum til að ýta þeim aðeins áfram og verja þær fyrir kuldanum sem á að koma núna um helgina.

Við höfum sett stefnuna á það að opna Hliðavöll á fimmtudaginn í næstu viku,hvort sem það verða 9 holur eða 18 og vonum við svo sannarlega að okkur takist það. Það er smá kuldi í kortunum yfir helgina en svo á að hlýna strax aftur sem verður vonandi til þess að þetta haldi allt áfram að þróast í rétta átt hjá okkur.

Við minnum á að æfingasvæðið okkar á Hlíðavelli er opið sem og æfingaflatirnar, hægt er að endurnýja boltalyklana frá því í fyrra hjá okkur á skrifstofunni.

Líkt og komið hefur fram þá verða breytingar hjá okkur á innskráningu í golf, nú notum við stafrænt kort sem er í golfbox appinu ykkar til þess að staðfesta rástíma. Það eru skjáir á okkar völlum með QR kóða sem þið notið til að staðfesta ykkar rástíma. Hvernig staðfesti ég rástíma

Við tökum einnig í notkun aftur eftir smá hlé GLFR appið sem flest ykkar vonandi þekkja. Það er búið að endurbæta það talsvert og vonumst við til þess að það eigi eftir að bæta okkar þjónstu til ykkar umtalsvert og hvetjum við ykkur til þess að sækja appið og setja það upp í ykkar símum.

Smellið hér til að skoða GLFR

Í GLFR eru yfirlitsmyndir af okkar völlum ásamt nákvæmum mælingum. Vallarstarfsfólkið okkar merkir inn hvar holurnar eru á flötunum og því fáið þið ávallt nákvæma mælingu þaðan sem þið eruð að leika ykkar bolta.

Það er hægt að skrá skor fyrir allt að fjóra kylfinga í appinu og er það beintengt golfboxinu og uppfærist skorið því sjálfkrafa í forgjafarkerfið.

Þið getið notið appið til þess að skrá tölfræði allra högg sem þið sláið á golfvellinum.

Heimasíðan okkar verður beintengd appinu þannig að þið fáið ávallt tilkynningu (ef þið óskið þess) þegar við sendum frá okkur fréttir.

Við höfum undanfarin ár ekki verið með skortkort í mótum hjá okkur ( fyrir utan meistaramót) og við ætlum að halda þeirri þróun áfram. Það eru talsverð þægindi fólgin í því að geta skráð skor beint í símann og senda það svo beint inn í forgjafarkerfið að leik loknum. Það einfaldar sérstaklega alla vinnu mótstjórnar við mótahaldið.

Þegar að golfmót eru þá setur það mjög svo skemmtilegan svip á golfmótin að geta ávallt fylgst með stöðu mála og höfum við tekið vel eftir því hversu mikil stemmning getur myndast þegar svo er.

Einnig ætlum að við lágmarka það eins og við best getum að bjóða upp á skorkort við daglegt spil þar sem okkar upplifun er sú að það séu ávallt fleiri og fleiri kylfingar hættir að nota þau.

Gleðilegt golfsumar :)