Golf Mosfellsbær
Mosfellsbær, Ísland

Davíð Gunnlaugsson lætur af störfum sem íþróttastjóri GM

29.11.2022
Davíð Gunnlaugsson lætur af störfum sem íþróttastjóri GM

Davíð Gunnlaugsson sem nánast allir GM félagar ættu að þekkja hefur óskað eftir því að láta af störfum sem Íþróttastjóri GM. Davíð hefur ákveðið að taka sér hvíld frá golfinu og skipta um starfsvettvang og mun hann láta af störfum í lok janúar.

Davíð hefur starfað hjá GM í um 20 ár, hóf hér störf sem unglingur við aðstoð í golfskóla GM sem starfræktur er á sumrin og hefur hann svo undanfarin sex ár verið í starfi íþróttastjóra. Davíð hefur leitt þann mikla uppgang sem verið hefur í okkar íþróttastarfi og undir hans handleiðslu hafa unnist fjölmargir Íslandsmeistaratitlar og íþróttastarfið okkar vaxið og dafnað virkilega vel. Það er því alveg ljóst að Davíð skilar af sér virkilega góðu búi.

Dagur Ebenezersson mun taka við starfi íþróttastjóra. Dagur er einnig flestum GM félögum vonandi kunnugur þar sem hann hefur unnið undanfarin ár hjá GM við golfkennslu og verið hluti af okkar sterka þjálfarateymi. Dagur er öllum hnútum kunnugur og mun án nokkurs vafa halda áfram þeirri miklu og góðu uppbyggingu sem hefur verið hjá okkur undanfarin ár.

Katrín Dögg Hilmarsdóttir, GM félagi til margra ára mun koma inn í okkar þjálfarateymi. Hversu mikið það verður mun tíminn leiða í ljós en hún mun hefja störf hjá okkur á nýju ári. Katrín er margreyndur kylfingur og hefur verið ein af okkar allra bestu kylfingum mörg undanfarin ár, hún hefur mikla reynslu af keppnisgolfi og við erum þess fullviss að hún á eftir að koma sterk inn í okkar starf.

Um leið og við óskum Davíð góðs gengis í nýjum verkefnum, bjóðum við Katrínu velkomna í okkar hóp. Einnig óskum við Degi til hamingju með sitt nýja starf og óskum þeim öllum velfarnaðar í þessum nýju áskorunum sem þau eru núna að taka sér fyrir hendur.