Mosfellsbær, Ísland

GM KYLFINGAR Í HÁSKÓLAGOLFINU

20.03.2020
GM KYLFINGAR Í HÁSKÓLAGOLFINU

Nú er ljóst að tímabilinu í háskólagolfinu í Bandaríkjunum er lokið þetta skólaárið. Við hjá GM eigum 3 kylfinga sem leika fyrir hönd sinna skóla en það eru þau Arna Rún Kristjánsdóttir, Björn Óskar Guðjónsson og Sverrir Haraldsson sem hóf nám við Appalachian State háskólann í Norður Karólínu núna í janúar.

Háskólagolf í Bandaríkjunum er spennandi kostur fyrir kylfinga til þess að sameina nám og golf. Hérna fyrir neðan er stutt yfirferð yfir árið hjá okkar kylfingum í skólagolfinu.


Arna Rún Kristjánsdóttir

Arna Rún var að ljúka sínu öðru ári hjá Grand Valley State University í Michigan. Arna lék frábært golf á þessu skólaári og bætti sig mikið frá fyrsta ári. Arna lék einna best af öllum liðsfélögum sínum á þessu skólaári og var meðal annars í 9. sæti í Low Country Invitational sem fram fór 2. - 3. mars síðastliðinn. Arna Rún bætti meðalskorið sitt um heil 4 högg á milli ára og augljóst að golfið er á góðri leið hjá henni.


Björn Óskar Guðjónsson

Björn Óskar var að ljúka sínu þriðja ári hjá Louisiana Lafayette í Louisiana. Björn fékk viðurkenningu í haust þegar hann var valinn Scholar Athlete of the year í golfliðinu.

Björn Óskar lék vel á þessu skólaári og var mikilvægur hlekkur í liði Louisiana. Björn átti marga góða spretti núna á vorönninni og lék gott golf. Björn stefnir á útskrift vorið 2021.


Sverrir Haraldsson

Sverrir hóf núna í janúar nám í Appalachian State háskólanum í Norður Karólínu. Þrátt fyrir að önnin hafi verið styttri en vonir stóðu til náði Sverrir að leika í tveimur mótum fyrir hönd skólans. Sverrir lék gott golf og býr af reynslunni í næsta skólaári. Sverrir nýtti tímann vel til æfinga og kemur sterkur inn í komandi golfsumar.