Mosfellsbær, Ísland

KRISTÓFER OG MARÍA ÍSLANDSMEISTARAR Í HOLUKEPPNI

16.08.2020
KRISTÓFER OG MARÍA ÍSLANDSMEISTARAR Í HOLUKEPPNI

Íslandsmóti unglinga í holukeppni lauk fyrr í dag á Hólmsvelli í Leiru. Yfir 150 keppendur mættu til leiks á föstudagsmorgun í 4 aldursflokkum. GM átti alls 24 keppendur í mótinu sem stóðu sig allir með stakri prýði. Hérna fyrir neðan er stiklað á helstu úrslitum okkar kylfinga.

Í flokki 14 ára og yngri stúlkna komst Eva Kristinsdóttir í undanúrslit. Eva lék um 3. sætið nú seinni partinn og eftir spennandi leik hafnaði Eva í 4. sæti. Flottur árangur hjá Evu!

Í flokki 15-16 ára stúlkna léku GM kylfingarnir Katrín Sól Davíðsdóttir og María Eir Guðjónsdóttir báðar í undanúrslitum. Þær sigruðu báðar undanúrslitaleikina sína eftir mikla spennu en báðar unnu 1/0. Þær mættust því í úrslitaleik eftir hádegið. Eftir afar jafnan og spennandi leik þar sem þær skiptust á að hafa forystuna hafði María Eir betur að lokum, 2/1. Frábært golf hjá þeim og gaman að fá hreinan GM úrslitaleik. Þess má geta að þær Berglind Erla Baldursdóttir og Sara Kristinsdóttir komust einnig í 8 manna úrslit í þessum aldursflokki og því framtíðin björt.

Í flokki 19-21 árs drengja mættust GM kylfingarnir Ingi Þór Ólafson og Kristófer Karl Karlsson í undanúrslitum. Eftir spennandi leik sigraði Kristófer á 17. braut og lék því til úrslita. Ingi Þór lék afar spennandi leik um 3. sætið en varð að játa sig sigraðan á 18. braut, 1/0. Kristófer lék afar vel og sannfærandi í úrslitaleiknum þar sem hann endaði á að sigra á 17. braut, 2/1.

Óskum okkar kylfingum innilega til hamingju með frábæran árangur! Hegðun þeirra og framkoma var þeim og klúbbnum sínum til mikils sóma, innan og utan vallar.

Áfram GM!