Mosfellsbær, Ísland

KRISTÓFER OG SVERRIR ÍSLANDSMEISTARAR Í HOLUKEPPNI

18.06.2019
KRISTÓFER OG SVERRIR ÍSLANDSMEISTARAR Í HOLUKEPPNI

Íslandsmót unglinga í holukeppni fór fram á Húsatóftavelli í Grindavík helgina 14.-16. júní, en GM átti 14 fulltrúa í mótinu. Leikinn var höggleikur á föstudag og eiginleg holukeppni laugardag og sunnudag.

Kristófer Karl Karlsson lék í flokki 17-18 ára drengja, en Kristófer Karl var í sjöunda sæti eftir höggleikinn. Eftir að hafa sigrað Aron Emil Gunnarsson úr GKG í 16 manna úrslitum, sigraði hann Kristófer Tjörva Einarssyni úr GV í 8 manna úrslitum og Jón Gunnarsson úr GKG í undanúrslitum. Kristófer Karl mætti Tómasi Eiríkssyni Hjaltested úr GR í úrslitaleiknum en hann lék frábært golf og fékk 6 fugla á 13 holum og vann leikinn 6/5. Þess má geta að Kristófer þurfti aldrei að leika lengra en 14. braut eftir 16 manna úrslitin.

Ingi Þór Ólafson mætti Jóni Gunnarssyni í úr GKG í sama flokki í leiknum um þriðja sætið en hann hafði betur 3/2 og tryggði sér þar með bronsið.

Sverrir Haraldsson lék í flokki 19-21 árs drengja en Sverrir var í 8. sæti eftir höggleikinn. Sverrir sigraði Helga Snæ Björgvinsson úr GK í 16 manna úrslitum, næst mætti hann Mosfellingnum Ragnari Má Ríkarðssyni í æsispennandi leik í 8 manna úrslitum, en Sverrir hafði betur á 18. holu. Sverrir sigraði Henning Darra Þórðarson úr GK í undanúrslitum og mætti Elvari Má Kristinssyni úr GR í úrslitaleiknum þar sem Sverrir vann öruggan sigur, 6/4 . Sverrir hefur leikið frábært golf á Íslandsbankamótaröðinni en hann hefur unnið öll þrjú mótin sem hafa farið fram í ár.

Mosfellingarnir Katrín Sól Davíðsdóttir og María Eir Guðjónsdóttir mættust í leik um þriðja sætið í flokki 15-16 ára stúlkna þar sem Katrín Sól hafði betur, 3/2.

Við óskum kylfingunum okkar innilega til hamingju með árangurinn en þau voru öll sjálfum sér og klúbbnum til sóma eins og ávallt.