Golf Mosfellsbær
Mosfellsbær, Ísland

Kvenkylfingur ársins - Arna Rún Kristjánsdóttir

02.12.2020
Kvenkylfingur ársins - Arna Rún Kristjánsdóttir

Hefð hefur myndast á að veita kylfingum ársins hjá GM viðurkenningar sínar á árshátíð klúbbsins sem farið hefur fram í nóvember. Því miður þurfum við að bregða út af vananum þetta árið og veita kylfingum ársins hjá GM viðurkenningar á annan hátt. Við bindum þó enn vonir við að geta haldið árshátíð GM fyrir árið 2020 fyrri hluta næsta árs.Kylfingar ársins hjá GM eru jafnframt fulltrúar GM í kjöri íþróttakarls og íþróttakonu Mosfellsbæjar sem fram fer í janúar ár hvert.

Kvenkylfingur ársins hjá GM fyrir árið 2020 er Arna Rún Kristjánsdóttir. Arna Rún er 22 ára Mosfellingur og hefur verið meðlimur í GM allan sinn feril. Arna Rún leikur fyrir Grand Valley State University í bandaríska háskólagolfinu og er á sínu þriðja ári. Arna hefur bætt sig mikið undanfarið ár og lék vel í háskólagolfinu á síðasta tímabili. Þetta haustið hefur Arna stundað fjarnám frá skólanum frá Íslandi og sinnt golfinu samhliða undir handleiðslu þjálfara sinna hjá GM.

Arna lék gott golf í sumar en hún var meðal annars í 5. sæti á Íslandsmótinu í golfi sem fram fór á Hlíðavelli. Þar lék hún frábært golf og sýndi hvers megnug hún er. Arna var eins og undanfarin ár lykilmaður í kvennasveit GM sem hafnaði í 3. sæti í Íslandsmóti golfklúbba í efstu deild.

Arna er frábær íþróttamaður, skipulögð, dugleg og metnaðarfull. Hún leggur hart að sér við æfingar, bæði golfæfingar sem og líkams og hugarþjálfun. Arna kemur afar vel fyrir og er góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur GM

Arna Rún er kvenkylfingur ársins hjá GM árið 2020.

Til hamingju Arna!

Kvenkylfingar ársins hjá GM frá 2015
2015 - Heiða Guðnadóttir
2016 - Ólöf María Einarsdóttir
2017 - Heiða Guðnadóttir
2018 - Arna Rún Kristjánsdóttir
2019 - Nína Björk Geirsdóttir
2020 - Arna Rún Kristjánsdóttir