Mosfellsbær, Ísland

Kylfingar ársins 18 ára og yngri - María Eir og Arnór Daði

04.12.2020
Kylfingar ársins 18 ára og yngri - María Eir og Arnór Daði

Kylfingar ársins 18 ára og yngri hjá GM eru þau María Eir Guðjónsdóttir og Arnór Daði Rafnsson.

María Eir Guðjónsdóttir er fædd árið 2004 og er því 16 ára gömul. María náði frábærum árangri á golfvellinum árið 2020 en hún lék í flokki 15-16 ára á Unglingamótaröð GSÍ ásamt því að leika á GSÍ mótaröð fullorðinna.

Helsti árangur Maríu á árinu var eftirfarandi.

  • Íslandsmeistari í holukeppni í flokki stúlkna 15-16 ára
  • Íslandsmeistari í höggleik í flokki stúlkna 15-16 ára
  • Stigameistari í flokki stúlkna 15-16 ára
  • Lék fyrir stúlknalandslið (U18) Íslands í Evrópumóti stúlkna í Slóvakíu

María var einnig í lykilhlutverki í liði GM sem hafnaði í 3. sæti í Íslandsmóti golfklúbba í kvennaflokki en þar tryggði María GM 3. sætið með sigri á 21. holu, 3 holu í bráðabana. María hefur tekið miklum framförum undanfarin ár og er ein allra efnilegasta stúlka landsins. María er afar metnaðarfull, kemur vel fyrir innan sem utan vallar og er öðrum kylfingum í GM góð fyrirmynd.

Arnór Daði Rafnsson er fæddur árið 2002 og er því 18 ára gamall. Arnór átti sitt best ár á golfvellinum núna í sumar. Hann lék í flokki 17-18 ára á Unglingamótaröð GSÍ en lék einnig í tveimur mótum á GSÍ mótaröðinni þar sem hann fór í gegnum niðurskurð á báðum mótum.

Frábært hugarfar einkennir Arnór Daða sem kylfing en hann leggur sig alltaf allan fram í þau verkefni sem hann tekur sér fyrir hendur, hvort sem það er á æfingum eða í keppni. Arnór átti sína bestu hringi í sumar þegar aðstæður voru sem mest krefjandi en það er lýsandi fyrir Arnór sem kylfing.

Arnór hafnaði í 3. sæti í fyrsta móti ársins á Unglingamótaröðinni á heimavelli. Arnór lék einnig fyrir lið GM í Íslandsmóti golfklúbba 18 ára og yngri. Arnór stundar nám við Menntaskólann í Reykjavík og stefnir á útskrift núna í vor. Arnór er mjög metnaðarfullur og hefðu allir gott af því að temja sér það hugarfar sem Arnór Daði hefur.

Óskum Maríu og Arnóri innilega til hamingju með þessa viðurkenningu!

Kylfingar ársins 18 ára og yngri frá 2012
2012 - Björn Óskar Guðjónsson
2013 - Björn Óskar Guðjónsson
2014 - Kristófer Karl Karlsson
2015 - Björn Óskar Guðjónsson
2016 - Ólöf María Einarsdóttir
2017 - Ragnar Már Ríkarðsson
2018 - Sverrir Haraldsson
2019 - Kristófer Karl Karlsson / Kristín Sól Guðmundsdóttir
2020 - Arnór Daði Rafnsson / María Eir Guðjónsdóttir