Mosfellsbær, Ísland
Mánudagur 7°C - 6 m/s

LITIÐ AFTUR Í TÍMANN - TITLEIST HOLUKEPPNIN

31.12.2017
LITIÐ AFTUR Í TÍMANN - TITLEIST HOLUKEPPNIN

Titleist holukeppnin

Þó það sé farið að líða vel á veturinn getur verið skemmtilegt að líta til baka á viðburði golfsumarsins og sjá hverjir stóðu upp úr í félagsstarfinu.

Titleist holukeppnin var virkilega vel sótt af félagsmönnum og mættu 78 karlmenn til leiks í forkeppni og 38 konur. Þáttaka kvenna stóð upp úr í þessu móti því að hlutfallslega mættu fleiri konur en karlar til leiks. Vegna þessara miklu þáttöku þurftu sigurvegarar kynjana að spila ansi marga leiki eftir forkeppni, sigurvegari karlaflokksins þurfti að spila 6 leiki til að sigra og sigurvegari kvennaflokksins spilaði 5 leiki til að sigra.

Það sást vel í fyrstu umferð hve margt getur gerst í holukeppni því að báðir sigurvegarar síðasta árs féllu úr leik, það voru þau Kristján Þór Einarson og Krisín María Þorsteinsdóttir. Þegar komið var að úrslitaviðureign flokkana þá voru það þær Hekla Ingunn Daðadóttir og Helga Rut Svanbergsdóttir sem léku til úrslita hjá konunum og þeir Kristófer Karl Karlsson og Ragnar Már Ríkharðsson hjá körlunum.

Spennan var mikil á fyrri níu hjá konunum en eftir þrettán holur var Helga komin 3 upp og leikurinn var svo orðinn dormie eftir að Helga vann einnig þá 14. Tvör pör á 15. innsigluðu svo sigur Helgu 4/3 og var Helga því sigurvegari í kvennaflokki árið 2016.

Strákarnir voru báðir að spila frábært golf og þegar að 9 holur voru búnar voru þeir báðir að spila undir pari. Þrátt fyrir það átti Ragnar Már eina holu eftir 10 holur. Svo kom Ragnar sér í svaka gír og vann fjórar holur í röð og sigraði á endanum 3/2.

Í framhaldi af þessum sigrum var spilaður úrslitaleikur kynjanna og sigraði Ragnar Már þann leik og voru því karlarnir kallaðir sterkara kynið þetta árið.