Mosfellsbær, Ísland

Neyðaráætlun og hjartastuðsvæðing á Hlíðavelli

16.06.2021
Neyðaráætlun og hjartastuðsvæðing á Hlíðavelli

Einstaklingar sem fara í hjartastopp á golfvöllum eiga minni lífslíkur en aðrir sökum þess að útkallstími er of langur. Til að ná fólki úr hjartastoppi þurfa nokkrir þættir að ganga upp. Einn af þáttunum er að gefa hjartarafstuð innan ákveðins tímaramma og þeim tíma er erfitt að ná eins og málum er háttað í dag. Lífslíkur sjúklings í hjartastoppi minnka um 7-10% við hverja mínútu sem líður ef ekkert er að gert.

Ekki er hægt að endurlífga sjúkling sem farið hefur í hjartastopp einungis með hjartahnoði og blæstri. Vissulega hjálpar endurlífgun við að koma í veg fyrir súrefnisskaða en til að ná fólki úr hjartastoppi verður að gefa rafstuð. Með styttri útkallstíma, kunnáttu og góðu skipulagi er hægt að auka lífslíkur umtalsvert.

GM hefur í samstarfi við Neyðarlínu og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins tekið í notkun áætlun sem virkjuð er ef alvarleg tilfelli verða á svæði Golfklúbbs Mosfellsbæjar á Hlíðavelli og er það von okkar að hægt verði að bjarga mannslífum í framtíðinni ef þannig aðstæður koma upp.

Hefur starfsfólk golfklúbbsins fengið kennslu og þjálfun til að bregðast við neyðartilfellum. Gunnar Björgvinsson félagi í GM hefur séð um þetta ferli frá upphafi ásamt því að sjá um að kenna öllum starfsmönnum GM fyrstu hjálp. Færum við honum bestu þakkir fyrir.

Hjartastuðtæki og annar fyrstuhjálparbúnaður verður staðsettur í Eftirlitsbíl sem mannaður verður á opnunartíma golfvallarins. Einnig eru aðrir starfsmenn virkjaðir og hafa meðal annars það hlutverk að taka á móti sjúkrabíl og koma áhöfn og búnaði á vettvang.
Sem betur fer höfum við sloppið við stóráföll hingað til en það er ekki spurning hvort, heldur hvenær við þurfum á neyðarþjónustu að halda. Þegar það gerist mun markmið okkar vera að við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja að einstaklingurinn komi aftur út í samfélagið og geti spilað íþróttina áfram.