Mosfellsbær, Ísland

Sverrir Haraldsson Íslandsmeistari í holukeppni

21.06.2021
Sverrir Haraldsson Íslandsmeistari í holukeppni

Nú um helgina fór Íslandsmótið í holukeppni á glæsilegum golfvelli golfklúbbs Þorlákshafnar. Það voru tólf kylfingar frá GM sem hófu leik í mótinu og spiluðu þau hörkuleiki í riðlakeppninni. Það fór svo þannig að við áttum þrjá kylfinga í átta manna úrslitinum. Það voru ásamt honum Sverri, þau Arna Rún Kristjánsdóttir og Kristján Þór Einarsson.

Í átta liða úrslitum mætti Sverrir GRingnum Jóhannesi Guðmundssyni og vann þann leik 3&1. Í undanúrslitum mætti hann svo Andra Þór Björnssyni úr GR og úr varð hörkuleikur þar sem báðir spiluðu stórkostlegt golf. Þar tryggði Sverrir sér sigur á 16 braut. Þá hafði hann fengið 11 pör og 5 fugla.

Í úrslitum mætti Sverrir svo honum Lárusi Inga Antonsyni úr Golfklúbbi Akureyrar, úr varð hörkuleikur í krefjandi aðstæðum þar sem það var kominn talsverður vindur. Þetta var mjög jafn leikur þar sem þeir skiptust á að hafa forystu framan af. Eftir 14 holur var allt jafnt og þá náði Sverrir sér í glæsilegan fugl á 15. holu og vann hana ásamt því að vinna svo 16. holuna líka. Sverrir tryggði sér svo Íslandsmeistaratitilinn með flottu pari á 17. holu.

Svo sannarlega glæsilegur árangur hjá honum og óskum við Sverri kærlega til hamingju með titilinn.

Við erum líka svo sannarlega stolt af öllum okkar kylfingum sem tóku þátt í þessu móti. Þau stóðu sig virkilega vel og voru eins og ávallt sínum klúbb til sóma.