Mosfellsbær, Ísland

FUNDUR UM GOLF, LÝÐHEILSU OG HREYFINGU Í MOSFELLSBÆ

04.05.2018
FUNDUR UM GOLF, LÝÐHEILSU OG HREYFINGU Í MOSFELLSBÆ

Þann 8. maí nk. fer fram opinn fundur á vegum Golfklúbbs Mosfellsbæjar og er fundarefnið golfið, lýðheilsa og hreyfing í bæjarfélaginu. Fundurinn verður haldinn í Kletti – Íþróttamiðstöð Golfklúbbs Mosfellsbæjar á Blikastaðanesi og hefst kl. 20.00.

Á síðustu árum hefur orðið skýrara og skýrara hversu miklu máli skiptir fyrir heilsu almennings að stunda útiveru og hreyfingu. Á það við um alla aldurshópa jafnt unga sem aldna. En þegar aldur færist yfir og fólk fullorðnast dregur oft úr útiveru og hreyfingu sem og annarri íþróttaiðkun.

Golf er næststærsta íþróttin á Íslandi og og gríðarlega mikilvæg hvað varðar bætta lýðheilsu og hreyfingu hjá almenningi. Í Mosfellsbæ státum við af frábærri aðstöðu til iðkunar golfs en hvernig má fjölga enn frekar þeim sem leggja stund á golf? Eru möguleikar til staðar til að samnýta aðstöðu og land sem lagt hefur verið undir golfvelli fyrir hreyfingu fleiri hópa? Er hægt að sameina almenn útivistarsvæði og svæði undir golfleik? Hvernig eflum við lýðheilsu og hreyfingu í Mosfellsbæ enn betur? Hvaða afstöðu hafa fulltrúar framboða til sveitarstjórnar til golfsins, lýðheilsu og hreyfingu innan sveitarfélagsins?

Til að svara þessum og fleiri spurningum fáum við nokkra aðila með sérþekkingu á málaflokknum til að halda létt erindi og sitja jafnframt í pallborðsumræðum á eftir og svara spurningum.

Janus Guðlaugsson, PhD-íþrótta- og heilsufræðingur Í hvað stefnir með hækkandi hlutfalli eldri aldurshópa? Janus mun fjalla um fjölþætta heilsurækt í sveitarfélögum fyrir 65 ára og eldri. Hver er leiðin að færsælum efri árum? Janus hefur haldið utan um verkefni bæði í Reykjanesbæ og í Hafnarfirði sem snúa að lýðheilsu og heilsueflingu eldri borgara ( 65+ ).

Ólöf Kristín Sívertsen, lýðheilsufræðingur (MPH) og verkefnastjóri Heilsueflandi samfélags í Mosfellsbæ Þróunar- og samfélagsverkefnið Heilsueflandi samfélag hefur verið þungamiðjan í lýðheilsustefnu Mosfellsbæjar frá aldamótum. Ólöf mun fjalla um hvað áunnist hefur og hvar hún telur tækifæri og möguleika felast til þess að gera enn betur.

Edwin Roald Rögnvaldsson, golfvallahönnuður Golfvöllur er eitt stærsta íþróttasvæðið í hverju sveitarfélagi og skiptir miklu máli að vel takist til um skipulagsmál þegar kemur að hönnun og skipulagi þeirra. Edwin Roald hefur verið í fararbroddi íslenskra golfvallarhönnuða og hefur sérstaklega skoðað samspil golfvalla við aðra byggð og starfsemi sem fram fer. Edwin fjallar um þau verkefni sem blasa við þegar hanna þarf golfvöll og þá einnig hvaða verðmæti eru fólgin í slíkum svæðum.

Fulltrúum framboðslista til sveitarstjórnar í Mosfellsbæ hefur einnig verið boðið að halda stutt ávarp á fundinum og skýra frá afstöðu síns framboðs til lýðheilsu, golfs og annarar útiveru í Mosfellsbæ. Eftir erindin munu framsögumenn sitja í pallborði og svara spurningum gesta.

Kaffiveitingar í boði og allir velkomnir!