Mosfellsbær, Ísland
Mánudagur 7°C - 6 m/s

MEISTARAMÓTIÐ HÁPUNKTUR SUMARSINS

08.01.2018
MEISTARAMÓTIÐ HÁPUNKTUR SUMARSINS

Björn Óskar Guðjónsson er einn besti kylfingur Golfklúbbs Mosfellsbæjar. Björn Óskar háði æsispennandi einvígi við Kristján Þór Einarsson í Meistaramótinu, sem endaði með því að Kristján setti ofan í hátt í 20 metra langt pútt fyrir sigri. Björn lauk leik á átta höggum undir pari. Hann var í kjölfarið valinn kylfingur ársins hér í GM og því spurðum við hann spjörunum úr.

„Sumarið var nokkuð gott en ég hefði viljað betri árangur, eins og alltaf. Ég byrjaði árið á að fara til Morgado í æfingarferð með GM þar sem ég spilaði mjög vel og eftir ferðina bjóst ég við að eiga frábært tímabil. Tímabilið byrjaði þó ekki eins og æfingarferðin endaði og ég átti ekki nógu gott mót í Keflavík. Næsta mót á eftir því var Íslandsmót unglinga í holukeppni þar sem ég keppti í flokki 19-21 árs og endaði í öðru sæti. Það mót var mjög mikilvægt fyrir reynslubankann en ég keppti á móti Vikari (sem var þá nýbúinn að vinna Eimskipsmót) og vann ég hann naumlega eftir að við báðir spiluðum gott golf.

Í úrslitum tapaði ég á móti Agli úr GKG (sem varð Íslandsmeistari í holukeppni fullorðinna nokkrum dögum seinna) eftir erfiðan leik. Næst tók við Íslandsmótið í höggleik í unglingaflokki þar sem annað sætið var staðreynd í flokki 19-21 árs. Ég spilaði ekki alveg eins og ég ætlaði mér en ég gafst ekki upp og spilaði vel seinasta hringinn, þrátt fyrir að hafa verið búinn að spila mig svo gott sem út úr keppni um sigurinn og er ég stoltur af mér fyrir það.

Næsta mót var Íslandsmótið, þar byrjaði ég á því að spila mig út úr mótinu á fyrsta degi og var ég mjög svekktur út í sjálfan mig fyrir það. Næsta mót var Borgunarbikarinn í Keili. Þar spilaði ég gott golf og var á tímabili í forystu á lokahringnum en spilaði seinni níu holurnar mjög illa. Seinasta mótið á Íslandi var svo Íslandsmót golfklúbba sem er alltaf einn af hápunktum sumarsins. Liðið spilaði vel og vorum við nálægt því að komst í úrslitaleikinn en urðum að sætta okkur við bronsið.”

„Hápunktur sumarsins var Meistaramótið. Þar spilaði ég sennilega besta mót ævi minnar til þessa. Ég gerði mörg mistök sem ég sé eftir eins og seinustu fjórar holurnar á fyrsta hringnum þar sem átti möguleika á að bæta vallarmetið í erfiðum aðstæðum en þurfti að sætta mig við 70 högg. Það hjálpaði mikið að hafa Maríu Eir, litlu systur mína á pokanum. Hún hjálpaði mér að svekkja mig ekki á slæmu höggunum og að halda einbeitingu.

Seinasti hringurinn var svo einn mest spennandi hringur sem ég hef spilað og þá sérstaklega seinni níu holurnar, þar sem ég og Kristján spiluðum báðir frábært golf. Þegar Kristján setti í púttið fyrir sigrinum var það hræðilega svekkjandi. Ég var með 1,5 meter fyrir pari og var farinn að reikna með því að ég þyrfti að setja það ofan í fyrir bráðabana, mér datt ekki í hug að hann myndi sulla þessu í. Þegar ég sá boltann læðast ofan í holuna gat ég ekki annað en farið að brosa. Þetta var búið að vera frábært mót hjá okkur báðum og þó ég hafi verið svekktur yfir því að tapa þessu þá var ég mjög sáttur með sjálfan mig og vissi að ég lagði mig allan fram. Ég hefni mín bara á næsta ári,” sagði Björn Óskar léttur að vanda.

Björn Óskar útskrifaðist úr Verzlunarskólanum í vor og hélt út í nám í haust til Bandaríkjanna. Þar hlaut hann styrk frá skólanum sem gerir honum kleift að stunda nám og spila golf fyrir hönd skólans.

„Ég er staddur eins og er í Lafayette Louisiana í skóla sem heitir University of Lafayette. Ég stefni á að ná mér í gráðu í stærðfræði sem gengur vel eins og er. Fyrstu önnina er ég í áföngum sem eru allir þægilegir vegna þess að ég er í raun búinn með hluta af náminu sem ég er að taka. Það auðveldar lífið hérna mikið þar sem þetta er svolítið mikið til að taka inn og átta sig á enda mikil viðbrigði.

Ég byrjaði tímabilið alls ekki eins og ég vildi. Ég spilaði ekki eftir minni getu og ég held að það hafi verið stress og væntingar þar sem ég er á skólastyrk sem gæti breyst eftir árangri. Ég er samt bjartsýnn á það að næsta tímabil verði frábært. Ég ráðlegg þeim sem eru að fara út að bara njóta þess og taka inn upplifunina sem fylgir því að vera í öðru landi,” sagði Björn Óskar jákvæður að vanda.

Björn er ekki eini Íslendingurinn í skólanum, en Ragnar Már Garðarsson (GKG) nemur einnig nám við University of Lafayette.

„Það var gott að hafa Ragga hérna með mér, það er alltaf gott að fá að tala íslensku fyrir framan liðsfélagana sem skilja ekki upp né niður í því sem við erum að segja. en ég held nú að ég hefði alveg spjarað mig ágætlega einn. Strákarnir í liðinu eru allir mjög viðkunnanlegir og vilja hjálpa mér með hvað sem er. Svo er þjálfarinn líka frábær, ef ég vill fara heim til hans og fá mér kvöldmat með fjölskyldunni hans þá er það ekkert mál,” en Björn er greinilega í góðum höndum í Louisiana.

Er mikill munur á golfinu í Bandaríkjunum í samanburði við Ísland?

„Golf er náttúrulega bara golf, bara koma kúlunni í holuna. Helsti munurinn eru vellirnir sem við spilum, veðrið og kylfingarnir. Vellirnir eru lengri og þrengri en þeir sem við spilum heima. Hérna eru flestar brautir með hættur báðum megin við brautina þannig að þú verður að hitta brautina. Svo getur orðið fáránlega heitt suma dagana þarna þar sem kylfurnar fara að renna úr höndum út af svita og maður þarf að drekka á hverri einustu holu svo maður fái ekki hausverk af uppþornun. Mótin hérna eru miklu dýpri heldur en heima, það er að segja það eru mun fleiri góðir kylfingar, en þeir bestu heima eru alveg jafn góðir og þessir hérna úti. Þannig að ef maður getur verið í keppni um sigur heima þá getur maður líka verið það úti.

Björn er eljusamur og metnaðarfullur og eyðir miklum tíma á og í kringum Hlíðavöll, enda eru fáir sem leggja jafn mikið á sig fyrir golfið. Hvernig er venjulegur dagur um hásumar hjá Birni?

„Maður þarf víst að fjármagna þetta sport þannig að ég vakna um sjö leytið og fer með pabba í vinnuna, þar sem ég fæ að slípa veggi og allskonar þannig skemmtilega hluti. Síðan kem ég heim og slaka aðeins á áður en ég fer niður á völl að æfa eða spila. Suma daga fer ég í ræktina en aðra slaka ég á. Davíð (Gunnlaugsson) ákvað að skipuleggja morgunæfingar þar sem við vöknum klukkan 6 og förum að vippa og pitch-a þannig að ég reyni að fara að sofa um 10-11 svo ég hafi nóg orku fyrir daginn en það tekst ekki alltaf.

Þeir sem þekkja Björn Óskar vita að hann er botnlaus þegar kemur að mat og getur borðað endalaust, sérstaklega gómsæta matinn hans Joost. En hvað er það sem skilar fólki árangri í golfi?

„Hungrið!,” segir Björn sem er alltaf hungraður, ýmist í ljúfmeti eða sigur. Hver eru markmið Björns fyrir komandi tímabil?

„Ég er ekki búinn að setjast niður og skrifa þau niður vegna þess að ég er að hugsa um háskólagolfið núna. Ég ætla mér samt að vinna mót, ég held líka að við höfum nógu sterkt lið til að vinna sveitakeppnina á næsta ári og það væri því frábært að sjá sem felst mæta og hvetja okkur áfram. Ég stefni líka að því að spila á Opna Breska áhugamannamótinu.

Ég er heldur ekki alveg búinn að ákveða mótaskránna hjá mér fyrir næsta árið en ég stefni á að spila í Íslandsmótunum, Meistaramótinu og auðvitað Íslandsmóti golfklúbba. Svo er klúbburinn með fullt af flottum mótum sem ég ætla að skoða. Titleist-holukeppnin og VÍKINGdeildin eru mót sem eru mjög skemmtileg. Maður fær að spila með fullt af fólki úr klúbbnum sem maður þekkir kannski ekki nógu vel og eignast þar með nýja vini, þessi klúbbur er fullur af frábæru fólki.“

Að lokum spyrjum við Björn hver sé vanmetnasti hlutinn við golf?

„Ætli það sé ekki jákvætt hugarfar. Það er ótrúlegt hvað fólk getur gert með jákvæðu hugarfari. Það að gefast ekki upp og vera alltaf jákvæður er eitthvað sem mun margborga sig,” sagði Björn Óskar Guðjónsson, kylfingur ársins hjá GM.