Golf Mosfellsbær
Mosfellsbær, Ísland

MAÐURINN Á BAKVIÐ MYNDAVÉLINA

03.01.2018
MAÐURINN Á BAKVIÐ MYNDAVÉLINA

Sigurður Geirsson, eða Siggi Geirs, eins og hann er jafnan kallaður er flestum félagsmönnum GM vel kunnugur. Hann er einn af þessum mönnum sem eru alltaf boðnir og búnir, ávallt viðbúinn eins og sannur skáti. En hver er maðurinn Sigurður Geirsson?


Ég fæddist í Reykjavík á því herrans ári 1955 og er því Reykvíkingur í grunninn. Ég flutti í Mosfellsbæ árið ´83 og hef verið hér síðan. Ég er giftur Steinunni Þ. Ólafsdóttur, hjúkrunarfræðingi, og eigum við tvær uppkomnar dætur og fjögur barnabörn.


Sigurður er menntaður viðskiptafræðingur og starfar í dag sem regluvörður hjá Íbúðalánasjóði en hvað kom til að hann fór að stunda golf.

Golf hóf ég að stunda árið ´89 og hef stundað það síðan. Segja má að vinnufélagarnir hafi dregið mig í golfið. Það blundaði að vísu alltaf einhver golf áhugi í mér sem kom frá pabba. Þegar ég vann í Útvegsbankanum í gamla daga var lítið annað rætt á kaffistofunni en golf. Það leiddi til þess að ég fór að kynna mér þetta meira og fékk tækifæri til þess að prófa að spila með ættingjum í Borgarnesi. Það hellirigndi og við hættum eftir 5 holur en þrátt fyrir votveðrið hafði ég gaman af. Fyrst ég gat skemmt mér í grenjandi rigningu þá var ljóst að þetta væri íþrótt sem ég myndi vilja leggja stund á.

En hvað er það sem gerir golf svona heillandi íþrótt?

Það er margt sem heillar við golfið og af nægu að taka. Útiveran, kyrrðin og nándin við náttúruna án þess þó að þurfa að fara langar leiðir til þess að komast þangað. Varðandi íþróttina sjálfa þá er golf góð hreyfing og í góðum félagsskap. Golfið er þess eðlis að maður á alltaf mikil og góð samskipti við þá sem maður er að spila með. Svo eru það auðvitað reglurnar, sem í mínum huga eru alls ekki flóknar.

Það er nú kannski ekki skrítið að reglurnar þvælist ekki fyrir Sigga enda einn færasti golfdómari landsins. Sigurður varð héraðsdómari í golfi árið 1990, landsdómari 1995 og árið 2000 tók hann R&A dómararéttindi í St. Andrews í Skotlandi. Sigurður er einn af upphafsmönnum dómaranefndar GSÍ og hefur verið formaður hennar frá upphafi. En hvers vegna allur þessi áhugi á golfreglunum?

Ef ég á að vera hreinskilinn þá veit ég ekki hvaðan hann kemur eða af hverju ég fór að dæma í mótum yfir höfuð. Þegar ég byrjaði í golfinu fannst mér að ég þyrfti að kunna reglurnar sem leikið er eftir og skellti mér á dómaranámskeið hjá GSÍ til að læra reglurnar. Síðan þróaðist þetta áfram. Ég fór að dæma hjá klúbbnum og í kjölfarið á mótum á vegum GSÍ. Á þessum tíma voru engir landsdómarar og aðeins tveir aðilar með R&A réttindi.

Ég komst fljótt að því að ég hafði yndi af því að vera á golfvellinum, fylgjast með spilinu og aðstoða leikmenn sem lentu í vandræðum.


En hvernig eru kylfingarnir? Myndir þú segja að kylfingar væru heiðarlegir?

Það má orða það þannig að upp til hópa eru þeir það. Ég myndi meta það svo að þar væri staðan aðeins betri en meðaltal þjóðarinnar, þar sem það eru ákveðnir persónuleikar sem sækja í golfið. Upp til hópa eru kylfingar að leika eins vel og þeir geta í takt við það sem reglurnar segja til um eða það sem þeir telja að reglurnar segi til um. Menn eru því oft að leika á skjön við gildandi reglur, en það er ekki af óheiðarleika eða viljandi heldur vegna þess að þeir þekkja reglurnar bara ekki nógu vel.

Siggi Geirs kemur félagsmönnum oftar en ekki fyrir sjónir á bak við myndavélina. Myndavélin er að minnsta kosti aldrei langt undan og hefur hann smellt af mörgum tugþúsunda mynda af félagsmönnum GM. En hvaðan kemur þessi áhugi á ljósmyndun?

Ég byrjaði að fikta við ljósmyndunina 15 ára gamall og stundaði hana nokkuð fram að því að maður kom sér upp fjölskyldu. Á þeim árum voru allar myndir teknar á filmur og var því nokkuð kostnaðarsamt að stunda þetta áhugamál en um leið varð það til þess að maður vandaði sig meira við hverja mynd. Ég lagði svo ljósmyndunina til hliðar í nokkur ár á meðan maður var að koma upp fjölskyldu. Þegar stafræna væðingin hófst fór áhuginn svo aftur af stað og hefur verið síðan.

Blaðamanni leikur forvitni á að vita hvort að það séu í raun kylfingarnir eða golfvöllurinn sem fangar auga ljósmyndarans. Eru kylfingar skemmtilegt ljósmyndaefni eða er það umhverfið í kring sem skiptir meira máli?

Fyrst og fremst eru það kylfingarnir sem ég er að reyna að ná myndum af. Bæði lenda kylfingarnir oft í skemmtilegum aðstæðum, sérstaklega utan brauta. Þá er gaman að mynda mismunandi sveiflur og sjá hvernig staða þeirra er þegar þeir eru að slá. Ljósmyndir af kylfingi í miðju höggi leiðir oft ýmislegt skemmtilegt í ljós í sveiflunni hjá þeim.

En auðvitað er það líka golfvöllurinn sjálfur. Golfvellir eru flestir augnayndi og því gaman að taka myndir þar. Og rúsínan í pylsuendanum er að sjálfsögðu að mynda kylfinga í fallegu umhverfi golfvalla.


En ef við snúum okkur að Golfklúbbi Mosfellsbæjar. Af hverju ertu í GM?

Það kemur nú upphaflega til út af því að þegar ég byrjaði í golfi var Golfklúbburinn Kjölur eini golfklúbburinn í Mosfellsbæ og þægilegast var fyrir mig að fara þangað til að stunda golfið. En fyrir utan hvað vallarsvæði GM eru krefjandi og skemmtileg til spilunar þá líður manni alltaf vel í klúbbhúsinu. Þar eru nánast alltaf einhverjir sem maður þekkir og skemmtilegur félagsskapur.

Sigurði er tíðrætt um félagsskapinn í golfíþróttinni og samspilara á vellinum. Hver er draumaráshópurinn?

Ég á mér nú engan draumaráshóp. Draumaráshópur er frekar hópur manna/kvenna sem er skemmtilegur og er að stunda golf sér til ánægju og yndisauka, samfara ákveðinni samkeppni.

Nú hefur þú unnið ómetanlegt starf fyrir GM. Sast í stjórn í 8 ár og nánast verið á vellinum frá fyrsta höggi Meistaramóts til þess síðasta mörg síðustu ár. Af hverju ertu tilbúinn að leggja allt þetta á þig. Hvað gefur þetta þér?

Þegar stórt er spurt er oft fátt um svör. Ég hef mikla ánægju af því að verja tíma mínum í tengslum við íþróttina og finnst að þegar maður tekur eitthvað að sér verði maður að gera það vel. Golfið hefur einhverra hluta vegna höfðað til mín og þegar ég byrjaði þá var hreyfingin hvergi nærri eins stór og hún er í dag og átti að mörgu leiti við erfiðleika að stríða.

Á þeim tíma var það því eina leiðin að menn gæfu af sér tíma og starfskrafta ef þeir vildu geta stundað íþróttina og farið á mót. Það var því ekkert nema eðlilegt að maður gæfi af sér og ynni í sjálfboðavinnu til þess að geta stundað þetta áhugamál sitt.

Þetta hefur síðan þróast út í það að hafa ánægju af því að sjá hlutina ganga upp. Verða vitni af ánægju þeirra sem í dag eru að koma í íþróttina með þá aðstöðu sem í boði er og ekki síður ánægju með vel framkvæmt mót þar sem hlutirnir ganga upp og þau vandamál sem koma upp séu leyst hratt og fagmennsku.


Áður en að við sleppum Sigurði viljum við fá að vita hvort að hann lumi ekki á einhverri skemmtilegri sögu af golfvellinum.

Allir eiga mýmargar sögur af vellinum, sem flestar snúa að góðum höggum, eða einhverju fyndnu sem fyrir þá hefur komið. Ef ég ætti að nefna eina sögu þá er það þegar ég ákvað að skreppa 9 holur á Hlíðavelli fyrir þó nokkrum árum.

Ég fór einn af stað og byrjunin á hringnum var slæm, vægast sagt. Á 2. braut (sem nú er níunda) tók ég 9 járnið í innáhöggið. Hitti hann frábærlega og var boltinn enn að hækka flugið þegar hann sveif yfir flötina. Miðað við núverandi byggð hefði hann sennilega lent í miðju húsinu aftan við völlinn. Þegar ég skoðaði kylfuna nánar kom í ljós að ég greip 6 járnið en ekki 9 járnið. Þarna ákvað ég að þetta væri ekki minn dagur og fór til baka í klúbbhúsið og fékk mér kaffisopa.

Á meðan ég drakk kaffið mitt kom kunningi minn á svæðið og ákváðum við að rölta saman 9 holur. Ég varaði hann við því að þetta væri nú ekki minn dagur. En þessar 9 holur lék ég eitt besta golf sem ég hef leikið og kom inn á 3 höggum yfir pari. Það eru hlutir eins og þessir sem gera golfið svona skemmtilegt.