Mosfellsbær, Ísland

Íþróttamiðstöð

Íþróttamiðstöð GM við Hlíðavöll - Klettur

Á Hlíðavelli hefur átt sér stað mikil uppbygging á 18 holu golfvelli frá árinu 2004. Sú uppbygging hefur verið miðuð við að ný félagsaðstaða kæmi miðsvæðis við völlinn með tveimur 9 holu hlutum sitt hvoru megin eins og hefðbundið er. Eldri húsakostur GM á vellinum hefur þjónað félagsmönnum og gestum með mikilli prýði í gegnum árin en endurnýjun orðin afar brýn.

Golfklúbbur Mosfellsbæjar tók nýja íþróttamiðstöð í notkun vorið 2017 sem hýsir skrifstofur klúbbsins og kemur til með að hýsa alla félags og æfingaaðstöðu til framtíðar. Að lokinni nafnasamkeppni fékk íþróttamiðstöðin nafnið Klettur.

Búið er að taka alla félagsaðstöðu á efri hæð í notkun. Í framhaldinu mun íþróttaaðstaðan á neðri hæðinni verða tekin í notkun en tímarammi þess er þó óljós eins og stendur.


Af hverju er þetta kallað íþróttamiðstöð?

Golfvöllur er í raun eitt stærsta íþróttamannvirki í hverju sveitarfélagi ef litið er til flatarmáls. Á hverju ári er áætlað að leiknir séu um 30.000 golfhringir á Hlíðavelli að sumri til og yfir vetrartímann eru þeir áætlaðir á bilinu 2.000—3.000 talsins. Eins og önnur íþróttahús getur golfvöllur mjög illa gegnt hlutverki sínu nema að við hann sé nauðsynleg aðstaða. Í grunninn má segja að ný íþróttamiðstöð gegni hlutverki anddyris að því íþróttamannvirki sem golfvöllur sannarlega er.
Í Kletti má finna alla skrifstofuaðstöðu fyrir starfsmenn GM. Þar er að finna rúmgóðan hátíðarsal til að taka á móti stærstu golfmótum hvers sumars ásamt allri nauðsynlegri aðstöðu vegna veitinga og móttöku hópa.
Þegar húsið verður fullbúið verður að finna á neðri hæð hússins fullkomna aðstöðu til æfinga golfs innandyra. Þar verður m.a:
  • 2 fullkomnir golfhermar
  • Ríflega 200 m2 innipúttflöt
  • Aðstaða til að slá í net innanhúss
  • Aðstaða fyrir golf-líkamsrækt
  • Fyrirlestrarsalur fyrir iðkendur og þjálfara
  • Aðstaða fyrir þjálfara og leiðbeinendur

Þegar húsið verður allt komið í gagnið mun verða til aðstaða fyrir börn og ungmenni í Mosfellsbæ að æfa sína íþrótt alfarið í heimabyggð við bestu mögulegu aðstæður.

Leitast verður við að bjóða öðrum hópum aðstöðu í húsinu til almennrar útivistar og hreyfingar. Svæðið verður tengt inn á stígakerfi Mosfellsbæjar og munu þar skapast mörg skemmtileg tækifæri fyrir tengingar við fleiri íþróttir og útvist í hjarta Mosfellsbæjar.


Lóðin, húsið og ferlið

Við hönnun hússins var leitast við að búa til framtíðarhúsnæði sem nýtast mun félagsmönnum um ókomna tíð. Húsið er tvílyft og verður öll hefðbundin aðstaða á efri hæðinni en á neðri hæð hússins verður aðstaða til æfinga og iðkunar golfs allt árið um kring.

Við hönnun hefur verið leitast við að skapa skemmtilega umgjörð fyrir félagsmenn og gesti klúbbsins og þá kannski sérstaklega í kringum mótahald enda Hlíðavöllur að komast í hóp fremstu golfvalla á Íslandi og erum við spennt að bjóða stærstu golfmót landsins velkomin í Mosfellsbæ.

Byggingarlóð hússins er afar glæsileg og situr beint yfir 1. holu Hlíðarvallar. Við blasir óviðjafnalegt útsýni yfir völlinn, Leirvoginn, Faxaflóann og auðvitað Esjuna. Á fallegum sumardegi má svo sjá Snæfellsjökul bera við sjóndeildarhringinn.

Í framhaldi af verklokum við fyrsta áfanga verður hafist handa við að undirbúa frágang neðri hæðar hússins eins og líst er hér að ofan. Þetta framkvæmdaplan varðandi frágang neðri hæðarinnar verður kynnt þegar 1. áfanga er lokið.

Efri hæð hússins var tekin í notkun sumarið 2017 og þykir einstaklega vel heppnuð í alla staði.


Golf allt árið um kring

Í nýrri íþróttamiðstöð verður hægt að stunda æfingar og golfleik allt árið um kring þegar 2. áfanga verður lokið. Á neðri hæð hússins sem verður gengið frá í 2. áfanga verksins, verður að finna stóra inni púttflöt, net til að slá högg innanhúss, aðstöðu fyrir sérhæfða líkamsrækt fyrir kylfinga ásamt búningaaðstöðu.
Þar verður einnig að finna sérhæfð rými fyrir fullkomna golfherma þar sem hægt verður æfa og leika golf allt árið um kring. Ennfremur verður að finna á neðri hæðinni fjölnota sal sem nýttur verður fyrir börn og unglinga sem iðka golf á vegum GM auk þess sem þjálfarar og kennarar klúbbsins munu hafa aðstöðu sína á neðri hæð.
Á efri hæðinni er öll aðstaða fyrir félagsmenn og gesti klúbbsins, hvort sem er við almennan golfleik eða við mótahald. Þar eru skrifstofur ásamt veitingastaðnum BLIK Bistro & Grill. Golfverslun og rástímaafgreiðsla er einnig á efri hæð hússins.