Golf Mosfellsbær
Mosfellsbær, Ísland

ÁRLEGT HÉRAÐSDÓMARANÁMSKEIÐ Í GOLFI

01.02.2017
ÁRLEGT HÉRAÐSDÓMARANÁMSKEIÐ Í GOLFI

Nú í febrúar mun dómarasamband GSÍ halda árlegt héraðsdómaranámskeið. Skipulag námskeiðanna er aðeins breytt frá fyrri árum því hefðin hefur verið að halda námskeiðin á vordögum. Hefur þessu verið breytt til þess að koma til móts við kylfinga sem ekki hafa komist á þessi námskeið vegna t.d. golfferða til útlanda.

Þessi námskeið eru skipulögð með ekki einungis kylfinga sem hafa áhuga á dómarastörfum í huga heldur einni þann almenna kylfing sem vill einungis dýpka skilning sinn á golfreglunum. Gaman gæti því verið fyrir kylfinga að taka þessi námskeið þótt þeir hyggi ekki á það að vinna við dómgæslu.

Haldin verða fjögur kennslukvöld í heildina þar sem farið verður yfir golfreglurnar. Að fyrirlestrunum loknum verður svo haldið héraðsdómarapróf. Þátttakendur fá þá að velja einn af tveimur mögulegum prófdögum. Fyrir þá sem ekki komast á fyrirlestrana er í boði að horfa á þá í beinni útsendingu á YouTube. Námskeiðið verður haldið í íþróttamiðstöð Laugardals og er öllum þátttakendum að kosntanaðarlausu.

Einnig er staðreyndin í málinu sú að golfklúbbum landsins hefur sárlega vantað fleiri dómara til þess að taka þátt í mótum, það á við um okkar klúbb. Gaman væri að fá sem flesta dómara inn í okkar klúbb bæði svo að kylfingarnir séu meiri partur af okkar starfi og svo að kylfingar geti spilað í mótum hjá okkur án þess að örvænta hvort að nægur mannskapur sé til þess staðar ef að eitthvað skyldi koma uppá.

Við hvetjum sem flesta sem hafa áhuga að kynna sér betur golfreglurnar að mæta á námskeiðin.

Dagskrá námskeiðsins er eftirfarandi:

1. fyrirlestur: Þriðjudaginn 7. febrúar kl. 19:00 – 22:00. Reglur 1, 2, 3, 6, 9, 10, 13 og 15.

2. fyrirlestur: Fimmtudaginn 9. febrúar kl. 19:00 – 22:00. Reglur 4, 5, 11, 16, 18, 19 og 20.

3. fyrirlestur: Mánudaginn 13. febrúar kl. 19:00 – 22:00. Reglur 7, 8, 21, 22, 24 og 25.

4. fyrirlestur: Miðvikudaginn 15. febrúar kl. 19:00 – 22:00. Reglur 12, 14, 17, 23, 26, 27 og 28.

Lokafyrirlestur og fyrra próf: Laugardaginn 18. febrúar kl. 10:00 – 13:00.

Lokafyrirlestur og síðara próf: Fimmtudaginn 23. febrúar kl. 19:00 – 22:00.

Athugið að að þátttakendur velja hvort þeir taka prófið 18. febrúar eða 23. febrúar.

Allir fyrirlestrar og prófin verða haldin í E-sal Íþróttamiðstöðvarinnar í Laugardal.

Skráning er í netfangið domaranefnd@golf.is

Einnig er hægt að skrá sig á skrifstofu GSÍ í síma 514–4050.

Skráningarfrestur fyrir héraðsdómaranámskeiðið er til hádegis þriðjudaginn 7. febrúar.