Golf Mosfellsbær
Mosfellsbær, Ísland

VIÐ REISUM HÚS! VILT ÞÚ HJÁLPA?

27.02.2017
VIÐ REISUM HÚS! VILT ÞÚ HJÁLPA?

Nú er íþróttamiðstöðin okkar komin á síðustu metrana og innivinna hafin af fullum krafti. Margar hendur vinna létt verk og því biðlum við til þeirra félagsmanna sem hafa tök á að hjálpa að leggja hönd á plóg. Kynningafundur vegna sjálfboðavinnu verður haldinn í nýjum sal Íþróttamiðstöðvar næstkomandi miðvikudag, 1. mars, klukkan 21:00.

Haft verður samband sérstaklega við þá félagsmenn sem þegar höfðu skráð sig á lista yfir sjálfboðaliða en mikilvægt er að sem flestir mæti á fundinn.

Ef einhver á ekki heimangengt á fundinn en vill leggja hönd á plóg er um að gera að láta vita af sér með tölvupósti á netfangið golfmos@golfmos.is.

Hér að neðan er samantekt á öllum þeim verkþáttum sem væri frábært að fá auka hendur í að vinna þó það sé ekki nema að handlanga hluti því öll hjálp, hversu lítil sem hún er gerir mikið fyrir okkur í heildina litið.

Smíðavinna
Unnið verður í teymisvinnu við að létta undir með smiðum í krinum smærri verkþætti. Þegar búið er að ganga frá raflögnum verða veggir einangraðir og síðan veggjum lokað og er stefnt að því að vinna þessi verkefni af krafti á 1-2 helgum og nokkrum kvöldum.

Vinnu verður skipt niður á milli manna þannig að hún dreifist jafnt og þétt. Björn Anton Jóhannsson byggingarnefndarmaður og smiður mun skipuleggja og stýra þessum verkþætti.

Rafmagnsvinna
Meistari hússins hefur samþykkt að leyfa vönum mönnum – helst rafvirkjum eða mönnum með verulega reynslu – að aðstoða við ídrátt og raflagnavinnu. Svavar Kristinsson byggingarnefndarmaður og meistari mun stýra þessari vinnu.

Tiltekt og frágangur á verkstað
Til að létta undir með smiðum verður myndað teymi félagsmanna sem skiptist á að koma á kvöldin og taka til eftir vinnu dagsins. Nákvæm tilhögun mun ráðast af þeim fjölda sem gefur kost á sér.

Stefán Þór Steindórsson byggingarnefndarmaður mun stýra þessari vinnu.

Múrvinna á neðri hæð
Þó svo að neðri hæð hússins verðir látin bíða núna í þessum áfanga viljum við reyna að búa í haginn og ganga frá málum með þeim hætti að hægt verði að ráðast hratt og örugglega í framkvæmdir á hæðinni.

Þess vegna er hugmyndin sú að hefja hleðslu á veggum í votrýmum þannig að þeir verði tilbúnir fyrir frekari frágang þegar það er tímabært. Stefnt er að því að vinna þetta hægt og bítandi á löngum tíma og ætti að henta vönum mönnum mjög vel.

Umsjón með þessum verkhluta verður á höndum Siggeirs Kolbeinssonar múrarameistara og stjórnarmanns GM,

Málun
Björgvin Elvar Björgvinsson málarameistari og félagsmaður í GM mun sjá um málningarvinnu við húsið. Óskað er eftir félögum sem vilja gefa kost á sér til að létta undir með vinnu málara ásamt að taka að sér smærri verk og frágang.

Hellulögn og frágangur lóðar
Í apríl verður byrjað að ganga frá lóð. Til stendur að helluleggja frá almennum göngustíg sem lagður verður fram hjá húsinu og alveg að stígum sem liggja að tilvonandi 1. og 10. teig.

Vinnukvöld þessi verða kynnt betur þegar nær dregur en þau munu ganga út á lokafrágang á hellum. Óskað er eftir vönum einstaklingum til að gefa kost á sér að hjálpa til við skipulagningu og framkvæmd þessara kvölda en auk þess munu Einar Gestur og Davíð Már vallarstjórar GM stýra þessum verkhluta.

Flutningur og frágangur inn í húsi
Þegar kemur að því að flytja okkur úr gamla skálanum í nýja aðstöðu munu verða mikil þörf fyrir aðstoð og hjálp. Ekki er fyllilega ljóst hvenær þessi vinna mun eiga sér stað en eins og stendur er gert ráð fyrir því að hún verði á bilinu 20. apríl til 10. maí en þetta getur auðvitað frestast.

Hérna er eins og gefur að skilja gott að fá sem flesta á lista. Sérstaklega óskum við eftir því að sendibílsstjórar eða þeir sem geta útvegað slíka bíla gefi kost á sér. Davíð Gunnlaugsson mun sjá um að stýra þessari vinnu.