STARF ELDRI KYLFINGA

50 ÁRA OG ELDRI

Golfklúbbur Mosfellsbæjar heldur úti afreksstarfi fyrir eldri kylfinga klúbbsins. Aðgang að golfæfingum á veturnar hafa þeir eldri kylfingar sem hafa náð eftirfarandi forgjafarviðmiðum sem og 50 ára aldri
(fæðingarár gildir - 1975 og fyrr).


Konur: Forgjöf 18.0 og lægra
Karlar: Forgjöf 9.0 og lægra

Allir kylfingar sem taka þátt í afreksstarfi eldri kylfinga gefa með því kost á sér í keppnissveitir GM í Íslandsmóti golfklúbba í flokki eldri kylfinga.

Golfæfingar eru haldnar alla föstudaga í janúar, febrúar, mars og apríl kl 15:00 í Kletti.


Til að skrá sig á æfingar þarf að standast viðmiðin hér fyrir ofan og senda tölvupóst með nafni og kennitölu á íþróttastjóra GM (dagur@golfmos.is).

Æfingagjald fyrir tímabilið er 20.000 kr.

Val í keppnissveitir 50+ 2024

Í hverri sveit eru 8 kylfingar og 1 varamaður sem munu leika undir merki GM í Íslandsmóti golfklúbba í flokki kylfinga 50+.

6 kylfingar komast sjálfkrafa inn af meðalskori og 2 kylfingar og 1 varamaður eru valdir af öldunganefnd, þjálfara og íþróttastjóra.

Leikið er um 6 sæti hjá kvk og 6 sæti hjá kk (án forgjafar):

2-7 bestu hringir í LEK / GSÍ

  • LEK mót - 2 til 5 bestu 18-holu skorin (Smelltu hér fyrir LEK dagskrá 2024)
  • Íslandsmót eldri kylfinga - 3 bestu 18-holu skorin
  • Stigamótaröð GSÍ og Íslandsmót í höggleik - 3 til 7 bestu 18 holu skorin

0-5 bestu hringir í GM

  • Meistaramót - 3 bestu 18 holu skorin ef leiknar eru 72 holur, 2 bestu 18 holu skorin ef leiknar eru 54 holur (lakasta skor gildir ekki óháð flokk) (betra mótið gildir ef leikið er í 2 mismunandi flokkum)
  • VITA mótaröð - 0 eða 3 bestu 18-holu skorin (fer eftir flokki í meistaramóti)

Bestu 7 hringir gilda. Kylfingar þurfa að lágmark að leika 7 hringi í mótum til að vera gjaldgengir í sveitir.


6. ágúst er síðasta viðmiðunarmót og því lokadagsetning.

Ef val stendur á milli tveggja eða þriggja kylfinga má liðsstjóri bjóða til umspils um sætin.

Leiki kvenkylfingur af meistaraflokksteigum (bláum/gulum) dragast 3 högg frá heildarskori.

Leiki karlkylfingur af meistaraflokksteigum (hvítum/svörtum) dragast 2 högg frá heildarskori.

65 ára og eldri

Öflugt 65+ starf í GM


Á vordögum 2022 var skipuð nefnd til þess að halda utan um starf kylfinga í GM sem hafa náð 65 ára aldri.

Með hliðsjón af markmiðum GM býður klúbburinn
65+ hópnum aðgang að aðstöðu félagsins alla miðvikudagsmorgna sumar og vetur.


Við þökkum stjórnendum GM velvild þeirra og stuðning við stofnun GM 65+ hópsins.


Við nýtum að sjálfsögðu dagana okkar vel og höfum miðvikudagsviðburði sumar, vetur, vor og haust.


Markmið GM 65+


1. Efla félagsleg tengsl eldri kylfinga GM

2. Setja fókus á fræðslu og heilsueflandi áhrif golfsins

3. Bæta golftækni miðað við líkamsgetu og aldur


Gildi og leiðarljós GM 65+


1. Virðing

2. Umburðarlyndi

3. Hjálpsemi

4. Húmor og gleði

Sumardagskrá 65+

Sumardagskráin fjallar að sjálfsögðu um samveru, golf og útiveru á miðvikudögum. Við skiptum dögunum upp og höfum breytileika í viðburðadagskránni þannig að allir finni eitthvað við sitt hæfi. Markmiðið er að pláss sé fyrir okkur öll, hvar sem við erum stödd í forgjöf og getu.


Við setjum upp meðal annars miðvikudags sumarmótaröð 65+ á Hlíðavelli og í Bakkakoti, leikdaga í Bakkakoti og vinaferðir á aðra golfvelli. Við hvetjum til samverustunda og spjalls á BLIK sem gefur GM 65+ 20% afslátt af veitingum alla miðvikudaga og einnig frábæra aðstöðu í Bakkakoti.


Vetrarstarf 65+

Þegar kólnar í veðri flytjum við miðvikudags starfsemi GM 65+ inn á neðri hæð klúbbhússins.


Húsið opnar klukkan 08:30 þar sem nefndarmaður tekur á móti 1000 kr. þátttökugjaldi og býður félagsmönnum upp á heitt kaffi og meðlæti.


Vetrardagskráin fylgir eftir markmiðum okkar og býður meðal annars upp á; púttkeppni, púttleiki, golfherma-kennslu, æfingar og keppni, bingó, félagsvist og heimsóknir fagmanna sem flytja fræðsluerindi um efni tengd golfi og heilsu eldri kylfinga.


Formlegri dagskrá lýkur um kl.11:30 og þá tilvalið að hittast á BLIK og nýta GM 65+ 20% afsláttinn.

Golfhermar

GM 65+ hefur aðgang að golfhermum alla miðvikudagsmorgna milli kl. 09:00 og 12:00. Þennan tíma viljum við nýta til golfhermakennslu og æfinga þeirra sem eru að stíga sín fyrstu skref í hermum. Með þessu viljum við hvetja og styðja fleiri 65+ félaga til að nýta sér möguleika hermanna til æfinga.


Þeir sem lengra eru komnir í notkun hermanna geta skráð sig alla virka daga frá kl. 09:00 til 14:00 og greiða þá aðeins 2000 kr. á klukkustund.

Eftir Ágúst Jensson 24. apríl 2025
Ágætu GM félagar. Gleðilegt sumar :) Það er gaman að geta sagt frá því í tilefni sumardagsins fyrsta að við ætlum að opna Hlíðavöll og Bakkakot á næstu dögum. Næstkomandi sunnudag 27. apríl verður hinn árlegi vinnudagur á Hlíðavelli og ætlum við að hefjast handa kl. 10:00. Við hvetjum sem flest ykkar til þess að mæta og hjálpa okkur að standsetja völlinn fyrir opnun. Það hefur verið frábær mæting undanfarin ár og við vonum að svo verði einnig í ár. Að loknum vinnudegi eða upp úr kl. 13:30 fá svo þau ykkar sem tóku þátt í honum forskot á sæluna og við ræsum út af öllum teigum eftir léttan hádegisverð. Hlíðavöllur opnar svo formlega mánudaginn 28. apríl. Bakkakotið opnar fimmtudaginn 1. maí og hlökkum við til að taka á móti öllum okkar kylfingum. Við vitum að þið eruð orðin spennt að komast út á golfvöll :) Við opnum fyrir rástímaskráningu á morgun föstudag kl. 14:00. Til að byrja með ætlum við að hafa rástímaskráninguna þannig að á virkum dögum spilast Hlíðavöllur sem tveir 9 holur vellir en um helgar verður hann 18 holur. Það er því þannig ( líkt og er ávallt hjá okkur á haustin) að ef þið ætlið að spila 18 holur á virkum degi þá þurfið þið að bóka ykkur á bæði fyrri og seinni 9. Er þetta gert þar sem reynslan hefur sýnt okkur að margir kylfingar spila bara 9 holur svona í byrjun sumars og því getum við bæði komið fleirum að og einnig dreifist umferðin betur á báðar lykkjurnar. Við vonum að þið takið vel í þetta hjá okkur. Við stefnum á að hafa fyrirkomulagið svona fyrstu 2 - 4 vikurnar. VIð viljum sjá hvernig þetta gengur hjá okkur og yrðum ykkur þakklát fyrir að láta okkur vita hvort þið séuð sátt við þetta fyrirkomulag eða ekki :) Til að byrja með verður okkar vellir eingöngu opnir fyrir meðlimi Golfklúbbs Mosfellsbæjar. Hlökkum til að sjá ykkur á sunnudaginn :)
Eftir Ágúst Jensson 15. apríl 2025
Æfingasvæðið á Hlíðavelli opnar á morgun miðvikudaginn 16. apríl kl. 15:00. Svæðið hefur þornað umtalsvert undanfarna daga og við ætlum því að opna það. Það er verið að vinna í því núna, koma mottunum út á svæðið, yfirfara boltavélina og ýmislegt fleira. Við munum einnig opna inn á æfingaflatirnar tvær sem þar eru. Til að byrja með (eða þar til að við opnum Hlíðavöll) verður boltavélin opin frá kl. 09:00 til 21:00. Yfir páskana verður opnunin þó með öðruvísi sniði eða sem hér segir. Fimmtudagur (skírdagur) 12:00 - 19:00 Föstudagurinn langi 12:00 - 18:00 Laugardagur 10:00 - 18:00 Sunnudagur (páskadagur) 12:00 - 18:00 Mánudagur (annar í páskum) 12:00 - 20:00 Golfhermarnir okkar eru að sjálfsöðu ennþá opnir og verður venjulegur opnunartími yfir páskana að því undanskildu að lokað er á Föstudaginn langa sem og á pásksdag.
Eftir Ágúst Jensson 1. apríl 2025
Veðrið hefur verið okkur ansi hliðhollt undanfarna daga. Nokkuð er síðan að borið var á flatir og þær sandaðar. Nú í dag var svo farið af stað og byrjað að slá flatirnar á Hlíðavelli. Það er ekki oft sem við förum svona snemma af stað með sláttinn þannig að þetta er bara spennandi :)
Eftir Ágúst Jensson 6. mars 2025
Kæru félagar GM 65+ SNILLINGAR GANGA SANNARLEGA INN Í NÝTT GOLFÁR MEÐ FÖGNUÐ Í HJARTA.
Eftir Ágúst Jensson 3. mars 2025
Á laugardaginn fór fram frumraun Golfsixes hér á landi og var það haldið sem innanfélagsmót á neðri hæð Kletts í golfhermaaðstöðu okkar. Golfsixes er golfmót fyrir byrjendur og þá sem eru að hefja keppnisferilinn sinn og er það á vegum R&A.
Eftir Ágúst Jensson 25. febrúar 2025
Við minnum á að ganga þarf frá greiðslu árgjalda í GM fyrir 28. febrúar næstkomandi.
Eftir Ágúst Jensson 10. febrúar 2025
Landsliðshópur Golfsambands Íslands var um helgina í æfingabúðum og tóku þau meðan annars golfæfingu í Fellinu í Varmá líkt og síðustu vetra. Yfir vetrartímabilið eru nokkrar landsliðshelgar þar sem er prógram fyrir kylfingana í formi mælinga, æfinga, fyrirlestra og fleira. Ólafur Loftsson landsliðsþjálfari sér um að skipuleggja þessar helgar en einnig er farið í eina æfingaferð á ári hverju þar sem þjálfarar koma með og var farið til Spánar í ár á La Finca.
7. febrúar 2025
Birkir Már Birgisson er nýr vallastjóri Hlíðavallar og mun hann hefja störf þann 1. apríl næstkomandi.
7. febrúar 2025
Felix Starke sem hefur verið hjá okkur undanfarin fimm ár hefur ákveðið að flytja aftur heim til Þýskalands.
30. janúar 2025
Pétur Valgarðsson golfkennaranemi býður nú upp á golfkennslu í Golfklúbbi Mosfellsbæjar og er hægt að bóka tíma á Noona.