Eva og Pamela flottar á HM stúlkna

Dagur Ebenezersson • 22. september 2025

Eva og Pamela flottar á HM stúlkna

Íslenska stúlknalandsliðið í golfi keppti á heimsmeistaramóti stúlknalandsliða 2025, World Junior Girls Championship, sem fram fór á St. Cathatrines G&CC vellinum í Kanada dagana 17.-20. september. Þetta var þriðja árið í röð sem íslenska landsliðinu er boðið að taka þátt í þessu móti.


Mótið er einstaklings – og liðakeppni. Leiknar voru 72 holur í höggleik þar sem tvö bestu skorin telja á hverjum hring í liðakeppninni.

Fyrir hönd Íslands leika Eva Kristinsdóttir og Pamela Ósk Hjaltadóttir, báðar í GM og Bryndís Eva Ágústsdóttir, GA.

Alls tóku 23 sveitir þátt í mótinu. Tvö lið eru frá Kanada og þátttökuþjóðir því 22. Hvert lið var skipað þremur kylfingum og keppendur því 69 í heildina.

Í liðakeppninni endaði lið Íslands jafnt í 16. sæti á 25 höggum yfir pari.

Eva Kristinsdóttir var best Íslendinganna í einstaklingskeppninni en hún endaði jöfn í 28. sæti á 6 höggum yfir pari samtals eftir hringi upp á 74-73-75-72.

Pamela Ósk Hjaltadóttir var næst best á +21 í 53. sæti en hún var á 77-80-75-77.

Hér má finna lokastöðuna í mótinu.