Fréttir af aðalfundi GM

Aðalfundur GM var haldinn í gær, mánudaginn 1. des.

Aðalfundur Golfklúbbs Mosfellsbæjar var haldinn í gær mánudaginn 1. desember og var virkilega vel sóttur þar sem rétt um 90 félagar mættu og þökkum við kærlega fyrir góða mætingu.
Á fundinum voru ýmsar viðurkenningar veittar.
Félagsmaður ársins er Þórdís Guðrún Arthúrsdóttir. Þórdís er búin að vera í Golfklúbbi Mosfellsbæjar frá því að hann var stofnaður, hún byrjaði sem meðlimur í Bakkakoti 2012 og og hefur verið hjá okkur síðan þá.
Þórdís hefur undanfarin ár verið virkur þátttakandi í 65+ starfinu okkar og hefur haldið utan um skemmtilega tölfræði sem hjálpar okkur við að efla og bæta það starf. Henni hefur ávallt þótt alveg einstaklega vænt um báða okkar velli og þá sérstaklega Bakkakotið. Hún er nánast eins og auka vallastarfsmaður þegar hún mætir og spilar og hugsar einstaklega vel um okkar velli. Þess má geta að Þórdís hefur verið meðlimur í golfklúbbi frá 1975, eða í samtals 50 ár.


Kylfingar ársins voru heiðraðir og í ár voru það þau Eva Kristinsdóttir og Kristófer Karl Karlsson sem hlutu þá viðurkenningu.
Golfsumarið hennar Evu var virkilega gott en hún lék töluvert erlendis fyrir hönd Íslands. Hún lék vel á Annika Invitational og Girls Amateur og náði góðum árangri. Hún lék einnig fyrir hönd Íslands í kvennalandsliði fullorðina á EM landsliða. Einnig keppti Eva á Heimsmeistaramóti landsliða 18 ára og yngri í Kanada og endaði þar í 28. sæti. Á Íslandi náði Eva góðum árangri en hún endaði í 3. sæti í Hvaleyrarbikarnum og sigraði á N1 mótinu á Korpu. Hún var einnig Íslandsmeistari golfklúbba 18 ára og yngri með stúlknasveit GM og Íslandsmeistari í holukeppni 18 ára og yngri. Næsta haust mun hún leika fyrir University of Iowa í Bandaríkjunum á háskólastyrk.
Kristófer var með tvo stóra sigra á keppnistímabilinu en hann var klúbbmeistari Golfklúbbs Mosfellsbæjar í Meistaraflokki í þriðja sinn á ferlinum á 9 höggum undir pari. Hann sigraði svo Korpubikarinn sem er eitt af stórmótum sumarsins á mótaröðinni en hann lék á 17 höggum undir pari og sló þar með mótsmet Korpubikarsins.
Óskum við þeim öllum innilega til hamingju og eru þau öll virkilega vel að þessu komin.
Við heiðruðum einnig fleiri GM félaga og munum segja frá því í annari frétt.
Félagsgjöld næsta árs voru einnig ávkveðin og þau má sjá á heimasíðunni okkar.
Árgjöldin eru komin inn í Sportabler.
Hægt er að skipta greiðslum í allt að 11 skipti sé gengið frá því fyrir sunnudaginn 21. desember. Þau ykkar sem ekkert gerið munu fá árgjaldinu skipt upp í fjórar greiðslur með fyrsta gjalddaga í byrjun janúar.
Vinsamlegast athugið að öllum greiðsluseðlum í banka fylgir 390 króna seðilgjald til bankans og öllum greiðslum sem settar eru á kreditkort fylgir 2% kostnaður.
Hægt er að millifæra fullt árgjald inn á reikning golfklúbbsins án allra aukagjalda. Þau ykkar sem kjósa að gera það mega leggja inn á reikning klúbbsins og senda kvittun á golfmos@golfmos.is
650581-0329
0116-26-000329.
Þau ykkar sem ætlið ykkur ekki að vera áfram meðlimir í GM eruð vinsamlegast beðin um að hafa samband við skrifstofu GM í gegnum golfmos@golfmos.is eða í síma 5666999 og tilkynna úrsögn. Sé það ekki gert þá gerum við ráð fyrir því að þið ætlið ykkur að vera meðlimir áfram.
Ef ekkert er gert fyrir 21. des næstkomandi þá munum við líkt og kom fram hér að ofan senda árgjöldin út og skipta þeim í fjórar greiðslur, fyrsti gjalddagi 2. janúar, 2026.
