Fréttir af okkar kylfingum.

Ágúst Jensson • 23. júlí 2025

Flottur árangur hjá kylfingum í GM.

Sara María Guðmundsdóttir sigraði sinn flokk á Icelandic Junior Midnight Challenge mótinu sem eru hluti af Global Junior Golf mótaröðinni. Mótið fór fram á Hlíðavelli og er þetta í fjórða sinn sem mótið er haldið. Sara spilaði gott golf og bætti sig ávallt á milli hringja en spilaðir voru þrír hringir. Besta hringinn sinn átti hún á lokadegi þar sem hún spilaði á 72 höggum.  Í síðustu viku var einnig spilað mót í GJG mótaröðinni í Kiðjabergi. Er þetta í fyrsta sinn sem tvö mót fara fram hér á landi.  Þar spilaði Sara María einnig virkilega vel og þegar upp var staðið var Sara jöfn öðrum kylfing í fyrsta sæti og þurftu þær því að fara í bráðabana. Þar tapaði Sara og endaði því í öðru sæti.  Virkilega flottur árangur hjá Söru og óskum við henni innilega til hamingju.

Kristófer Karl sigraði Korpubikarinn.


Kristófer spilaði virkilega gott golf á Korpunni og það var stöðug bæting hjá honum á milli hringja. Hann var fjórði fyrir lokahringinn, en lék frábært golf og spilaði á 63 höggum, átta undir pari, fékk tvo erni, fimm fugla og einn skolla á hringnum. Kristófer lék mótið í heild sinni 17 undir pari. Hann tryggði sigurinn með frábæru pútti á 18. holunni, og sló í leiðinni mótsmet karla í Korpubikarnum.


Auður Bergrún Snorradóttir lék einnig virkilega gott golf og endaði í þriðja sæti á mótinu, en hún spilaði samtals á tveimur höggum undir pari vallarins þessa þrjá daga. Virkilega vel spilað hjá henni. 


Óskum við þeim til hamingju með árangurinn.