GM félagi dagsins

GM félagi dagsins er hún Rakel Ýr Guðmundsdóttir

Forgjöf?
23,5
Hvenær varsðstu félagi í GM?
Ég byrjaði í golfi árið 2020 og gekk það sama ár í GM.
Afhverju byrjaðirðu að spila golf?
Við byrjuðum fjölskyldan saman í golfi, ég, maðurinn minn Páll Örn Líndal og dóttir okkar Andrea Líf Líndal sem fór að æfa golf hjá GM. Tvíburasystir mín Björg Ýr þrýsti mikið á okkur að byrja í golfinu. Hún er í GA og var sjálf orðin forfallin eftir aðeins tvö ár í golfinu. Ég viðurkenni að ég skildi ekki alveg í fyrstu hvað gæti verið svona spennandi við þetta sport en er núna orðin sami golfsjúklingurinn og hún. Ef maður er ekki í golfi þá er maður að hugsa um hvenær maður kemst ég næst í golf!
Hvað er skemmtilegast við golfið?
Það er svo margt gott og skemmtilegt við golfið. Í fyrsta lagi er það félagsskapurinn og að kynnast öllu þessu skemmtilega fólki sem er í GM. Síðan er það auðvitað hreyfingin og útiveran sem gefur mér mikið og þessi stöðuga löngun til að bæta sig.
Hvernig hefur golfið gengið hjá þér?
Það hefur gengið nokkuð vel en það er klárlega rými til bætinga sem er einmitt það sem er svo skemmtilegt við golfið. Næsta markmið er að ná að lengja höggin og ég á einmitt bókaðan tíma hjá Davíð Gunnlaugs golfkennara í janúar og treysti á að hann sé rétti maðurinn til að hjálpa mér með það.
Hefurðu farið holu í höggi?
Já – það var stórkostleg tilfinning og mjög óvænt! Það gerðist í september sl. á Font Del Lloop golfvellinum rétt fyrir utan Alicante. Ég og systir mín Björg vorum bara tvær í holli. Eiginmenn okkar, bróðir og mágkona voru í hollinu á undan okkur. Þetta var hola nr. 12 sem er krefjandi par 3 hola yfir vatn (versti óvinur höggstuttra kylfinga) og í talsverðum mótvindi. Ég tók mína stærstu kylfu og vonaðist til að ná yfir þetta mikla stöðuvatn. Við sjáum boltann fljúga vel yfir vatnið og lenda rétt fyrir ofan flötina og missum þá sjónir af boltanum. Í fyrstu hélt ég að boltinn hefði rúllað yfir flötina og lægi í kantinum en þá segir systir mín ”ég er viss um að boltinn sé í holunni” og labbar að holunni. Af svipnum hennar að dæma þá var enginn vafi um að hún hafði rétt fyrir sér! Út brutust mikil fagnaðarlæti og að sjálfsögðu var fagnað vel eftir hring.
Eftirminnileg atvik eða sögur af golfvellinum?
Já það er alltaf þetta skoplega sem situr eftir og er gaman að rifja upp. Mér fannst það kannski ekki fyndið þá en get hlegið af því núna þegar Tjaldur réðst á mig og elti mig niður 12. braut á Hlíðarvelli þar sem ég hafði vogað mér of nálægt hreiðrinu hans – hann hætti ekki þó svo að ég væri komin talsvert frá hreiðrinu og nánast inná flötina. Eftir þetta atvik hef ég tekið Kríuna í mikla sátt en hún er ljúflingur í samanburði við Tjaldinn.
Annað skoplegt á vellinum sem fær mig alltaf til að hlægja er þegar bremsurnar losnuðu óvænt á golfkerrunni hjá góðum vini mínum og við sáum á eftir kerrunni á fleygiferð niður skurðinn við 1. braut á Hlíðarvelli. Aðkoman var auðvitað ekki falleg lengst ofaní skurði og það tók talsverðan tíma að týna saman kylfur og fleira dót í golfsettinu sem dreyfðist um skurðinn.
Hvað er draumahollið þitt?
Það er Björg systir, Nelly Korda og Charley Hull. Það yrði ekkert vesen á þessu kvennaholli.
Uppáhaldsvöllur?
Hlíðavöllur, Grafarholtið og Font Del Lloop
Hlíðavöllur eða Bakkakot?
Hlíðavöllur
Besti kylfingurinn sem þú hefur spilað með?
Það er bróðir minn Eiríkur Guðmundsson, hann er líka svo jákvæður og hvetjandi.
Spilaru golf í golfhermum yfir vetrarmánuðina?
Já hef gert það eftir áramót til að byrja undirbúa golfsumarið.
Spilarðu alltaf golf með sömu vinunum eða ertu dugleg/ur að skrá þig í holl þar sem þú þekkir fáa?
Ég á mína föstu og uppáhalds golfvini sem ég spila mikið með en svo er mjög gaman að spila með fólki sem maður hefur aldrei spilað með áður og ég er óhrædd að skrá mig með nánast hverjum sem er. Maður lærir alltaf eitthvað nýtt með því að spila með nýju fólki. Ég minnist þess einu sinni þegar ég var að spila með ungum kylfingi sem ég þekkti ekki neitt í Leirdalnum í GKG. Ég var endalaust að missa stuttu púttin og hann fór að leiðbeina mér og gef mér góð ráð sem ég bý enn að og hef nýtt mér til að bæta púttin. Það er svo frábært þegar fólk gefur svona af sér við bláókunnuga – þetta er það einstaka við golfið.
Ertu dugleg/ur að taka þátt í starfinu í GM? Ef svo er, hvað finnst þér skemmtilegast?
Já ég hef verið dugleg við að taka þátt í öflugu starfi GM. Ég var t.d. í kvennanefndinni í 2 ár sem var frábær reynsla og félagsskapur. Ótrúlegur kraftur og gleði sem er að finna meðal GM kvenna. Síðan hef ég tekið þátt í öllum meistaramótum GM frá því að ég byrjaði í golfi – það er klárlega skemmtilegasta vika ársins. Svo er það auðvitað Palla Open mótið í júní hjá GM sem á stóran sess í hjarta mínu og eitt skemmtilegasta mót sumarsins. Draumurinn er svo að komast einhver tíma í Viking deildina með öflugt lið – hver veit hvað sumarið ber í skauti sér!
Er eitthvað hjá okkur í GM sem þeir finnst mega betur fara?
Það er búið að vinna frábært starf við að bæta ýmislegt á völlum GM. Þar er hægt að nefna flatirnar sem hafa tekið miklum framförum, bæði á Hlíðavelli og í Bakkakoti. Mér finnst tækifærin núna liggja í að bæta teigana við margar brautir. Eins sakna ég að það taki ekki á móti manni betri merkingar á teigunum, myndir af brautunum og lengdarupplýsingar. Ég veit að það er hægt að sjá þetta allt í öppum í símanum og í úrinu en það er þessi tilfinning og upplifun að mæta á teig og það tekur á móti þér fallegt skylti með gagnlegum upplýsingum.
Og að lokum, hvernig fer um þig í GM?
Mér líður mjög vel í GM og vil hvergi annars staðar vera – frábær mórall og stemming í klúbbnum.
Svo biðjum við þig um að tilnefna næsta GM félaga dagsins 😊
Það er minn golfsálufélagi Helena Dröfn Wellings Jónsdóttir.
