Golfsumarkveðja frá GM konum

Golfsumarkveðja frá GM konum
Kveðjum golfsumarið 2025 – kveðja frá kvennanefndinni
Núna er golfsumarið 2025 að líða undir lok og þökkum við nefndin kærlega fyrir okkur. Takk kæru vinkonur fyrir að vera svona duglegar að taka þátt í kvennastarfinu okkar og gera það svona skemmtilegt. Það var margt og mikið brallað saman í sumar og erum við nefndin virkilega ánægðar með starfið og þátttökuna í ár. Einnig þökkum við styrktaraðilum okkar kærlega fyrir stuðninginn og þá sérstaklega Golfklúbbi Mosfellsbæjar, því án hans þá væri þetta flotta kvennastarf ekki mögulegt.
Dagskrá kvennastarfs GM hefur verið fjölbreytt í vetur og sumar.
Golfhermamót - vetrarstarf
Starfið hófst með 2 golfhermamótum í Golfklúbbi Mosfellsbæjar í febrúar og mars. Fyrirkomulagið var þannig að fyrstu rástímar í alla hermana voru kl. 9.00 og seinni rástímar 12:30. 40 þátttakendur tóku þátt í hvort skipti og spilaðir voru Grafarholtsvöllur og Leirdalurinn. Verðlaunaafhending fór svo fram að loknu móti og voru veitt verðlaun fyrir 1. til 3. sæti, lengsta drive og næst holu.
Vorfagnaður
Kvennanefndin bauð aftur til vorfagnaðar “Vertu velkomið golfsumarið 2025”. Þar komu GM konur saman og áttu skemmtilega kvöldstund. Boðið var upp á fordrykk og létta smárétti að hætti Blik Bistro, dagskrá golfsumarsins 2025 kynnt og nýjar GM konur boðnar velkomnar. Katrín Dögg Hilmarsdóttir PGA kennari kom og kynnti fyrir okkur sumarnámskeið og kennslu sem GM býður upp á yfir sumartímann. Cutter & Buck mætti svo til okkar og voru með pop up verslun og buðu GM konum upp á flottan fatnað og vörur á frábæru verði. Einnig var dregið úr seldum miðum nokkrir happdrættisvinningar. Þetta var skemmtilegt kvöld og gaman að hittast í upphitun fyrir komandi golfsumar.
Regluleg þriðjudagsspil
GM konur eiga frátekna rástíma alla þriðjudaga frá maí til lok ágúst á milli kl 17 og 18.30 þegar spilað er í Bakkakoti og frá kl. 17-18 á Hlíðavelli þegar við spilum þar. Skráning í þriðjudagsspil og mót fer fram í gegnum golfboxið og er mikil eftirspurn eftir þeim tímum og fyllast tímar að jafnan hratt. Ljóst er að með fjölgun kvenna í GM mætti skoða að fjölga rástímum í takt við þá þróun. Við tókum þá ákvörðun að halda áfram að rukka kr. 1000 fyrir litlu mótin sem voru haldin yfir sumarið til að eiga sjóð fyrir flotta vinninga á mótum GM kvenna yfir sumarið og niðurgreiða kostnað í lokamótið.
Púttmót - telja púttin
Að þessu sinni héldum við 2 púttmót, sem gengur út á að telja púttin en ekki höggin eins og við gerum venjulega. Frábær leið til að leggja sérstaka áherslu og fókus á púttin sem við viljum allar fækka til að lækka skorið! Þarna skiptir stutta spilið bara máli og þá þarf að leggja spilið þannig upp að ekki fara alveg inn á flötina strax því að púttin voru einungis talin. Óhætt að segja að keppnisskapið kom upp í okkur flestum.
Texas scramble - 4 manna
Við héldum eitt 4 manna Texas scramble mót. Fer leikurinn þannig fram að allir slá högg af teig, síðan velja þeir þann bolta sem þeim þykir vera í bestu stöðu og slá allir boltann þaðan. Þeir sem eiga þá bolta sem kylfingunum þykir lakari færa því sína bolta að bolta félaga síns. Sá sem átti besta boltann slær yfirleitt á undan og hinir á eftir. Eftir þau högg endurtekur ferlið sig allt þangað til boltinn er kominn í holuna. Það er alltaf gaman að spila Texas scramble því allir geta tekið þátt sama á hvaða stigi þeir með forgjöfina.
Vinkvennamót GKG á Hlíðavelli
GKG konur byrjuðu á því að koma til okkar á Hlíðavöll. Fyrirkomulagið er þannig að það eru 2 GM konur og 2 GKG konur í hverju holli. Í ár var mikil ásókn í mótið og komust færri að en vildu. Við spiluðum í blíðskaparveðri á Hlíðavelli og svo var verðlaunað fyrir mótið úti á svölum Blik. Veitt voru glæsileg verðlaun fyrir 1. til 3. sæti, 1. sæti í höggleik sem og nokkur útdráttarverðlaun. GM konur fóru síðan í Leirdalinn til GKG kvenna í ágústmánuði, einnig í blíðskaparveðri þar sem GKG konur tóku einstaklega vel á móti okkur með teig gjöfum frá Balmain, flottum verðlaunum og útdráttarverðlaunum.
Pilsa og hattamót, Cutter & Buck
Það var svo skemmtilegt að sjá allar konurnar okkar í kjólum/pilsum og með hatta að spila golf. Reglurnar voru einfaldar, kjóll/pils og hattur og það mátti ekki vera hefðbundinn golffatnaður sem gerði þetta aðeins erfiðara því að það getur verið erfitt að spila golf í kjól eða pilsi. Stórskemmtilegt mót í ágætu veðri í Bakkakotinu okkar. Cutter & Buck lagði til flott verðlaun í mótinu auk afsláttarkóða í verslun þeirra.
Hefnd nefndarinnar
“Hefnd nefndarinnar” hljómar svo skemmtilega. Í þessu móti voru ýmsar þrautir lagðar á brautirnar, til að nefna nokkrar þrautir: rétthent kona þurfti að taka upphafshögg með örvhentri kylfu og síðan öfugt, upphafshöggið á einni braut þurfti að taka með barnadriver, á einni braut þurfti að taka Happy Gilmore sveiflu í upphafshöggi - það var mjög skemmtilegt og þurftu konur að telja öll vindhöggin sem komu út frá þeirri flottu sveiflu.
Haustferð – lokahóf
Hin árlega haustferð GM kvenna var að þessu sinni á Brautarholtsvelli á Kjalarnesi. Margar hverjar voru að spila völlinn í fyrsta skipti og aðrar að prufukeyra nýju 6 holur vallarins þar sem völlurinn státar nú af 18 holum.
Við nýttum sjóðinn okkar frá sumrinu til þess að greiða niður haustferðina og gátum við því niðurgreitt kr. 3000 pr GM konu í lokamótið og var því mótsgjaldið 9.500 kr.
Við spiluðum í allskonar veðri; sól, roki og úrhelli, en sem betur fer var ekki of kalt og mótið gekk vel fyrir sig. Rástímar voru milli kl 9:10 og 12:10. Síðan hittumst við á Blik kl 19 og þar beið okkar aðalréttur og dessert að hætti Blik. Þar voru veitt verðlaun fyrir bæði höggleik og punktakeppni, lengsta drive, nándarverðlaun auk fyrirfram ákveðinna sætis verðlauna(útdráttarverðlaun). Samtals vorum við með um 28 verðlaun og þökkum við sérstaklega þeim félagskonum sem gátu lagt til verðlauna, það er ómetanlegt.
Við kvöddum 3 nefndarkonur, Kolbrúnu Klöru, Rakel Lind og Þóru H. Passauer.
Við erum búnar að eiga yndislegt samstarf saman og buðum margar nýjar nefndarkonur velkomnar þær Lindu Björk, Veru, Margréti, Írisi Evu, Guðbjörgu Elínu og Lilju Björk og hlökkum mikið til samstarfsins með þeim.
Að lokum viljum við þakka fyrir okkur og ykkur í sumar, án ykkar kæru GM konur væri ekki til kvennanefnd GM.
Knús & kossar
Kvennanefndin 2024-2025
Lena Ýr
Kolbrún Klara
Rakel Lind
Þóra H. Passauer
Styrktaraðilar
A4
Bakkakot
Cutter & buck golffatnaður /New wave heildverslun
Dominos