Guðjón, Bryndís og Hjalti unnu sína flokka á Icelandic Junior Midnight Challenge

Icelandic Junior Midnight Challenge mótið sem haldið er á vegum Global Junior Golf mótaraðarinnar var haldið hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar í síðustu viku og lauk á föstudag. Má segja að veðurguðirnir hafi loksins verið nokkuð hliðhollir ungu kylfingunum þá þrjá daga sem mótið stóð yfir, eftir að fresta þurfti ræsingu fyrsta daginn vegna úrhellisrigningar.
Mótið var fyrir kylfinga 23 ára og yngri og alls mættu 36 ungir kylfingar til leiks. Í drengjaflokki var keppt í flokkum 14 ára og yngri og 18 ára og yngri. Í stúlknaflokki var keppt í einum flokki 18 ára og yngri. Hjá drengjunum, sem léku allir af sömu teigum, var einnig keppt í heildarkeppni óháð aldursflokkum.
Í flokki 18 ára og yngri drengja sigraði Guðjón Frans Halldórsson GKG á 209 höggum eða 4 höggum undir pari, í öðru sæti varð Heiðar Steinn Gíslason NK á 213 höggum og í þriðja sæti varð Gunnar Þór Heimisson GKG á 216 höggum.
Í flokki 18 ára og yngri stúlkna sigraði Bryndís Eva Ágústsdóttir GA á 219 höggum eða 6 höggum yfir pari eftir bráðabana við Auði Bergrúnu Snorradóttur GM og í þriðja sæti varð Pamela Ósk Hjaltadóttir GM á 224 höggum.
Í flokki 14 ára og yngri drengja sigraði Hjalti Kristján Hjaltason GM á 211 höggum eða 2 höggum undir pari, í öðru sæti varð Halldór Jóhannsson GK á 220 höggum og í þriðja sæti varð Arnar Daði Svavarsson GKG á 225 höggum.
Í heildarkeppninni óháð aldurflokkum drengja sigraði Guðjón Frans Halldórsson GKG á samtals 209 höggum og í öðru sæti varð Hjalti Kristján Hjaltason GM á 211 höggum og í þriðja sæti varð Heiðar Steinn Gíslason NK á 213 höggum.
Þetta var þriðja ári í röð sem Icelandic Junior Midnight Challenge mótið er haldið hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar.
Hér má sjá lokastöðuna í mótinu.