Kristján og Eva eru kylfingar ársins 2024

Golfklúbbur Mosfellsbæjar • 4. desember 2024

Kristján Þór Einarsson og Eva Kristinsdóttir eru kylfingar ársins 2024.

Kristján Þór átti frábært golfsumar þar sem hann endaði í 5. sæti á stigalista GSÍ í karlaflokki. Sigur í meistaramóti GM á 17 höggum undir pari var toppur sumarsins og bætti hann mótsmet klúbbsins um 6 högg. Einnig endaði Kristján í 3. sæti í Íslandsmótinu í holukeppni á Skaganum. Í Íslandsmótinu í höggleik endaði Kristján jafn í 9. sæti, 8. sæti í Hvaleyrarbikarnum og jafn í 11. sæti í Korpubikarnum. Var hann í kjölfarið valinn í karlalið Íslands fyrir EM liða.


Á stigamótaröð GSÍ endaði Eva í 2. sæti í fullorðinsflokki. Í Íslandsmótinu í höggleik var hún í toppbaráttunni þangað til á lokaholunum en endaði jöfn í 4. sæti. Hún endaði í 3. sæti í Íslandsmótinu í holukeppni. Í Íslandsmóti golfklúbba tryggði hún GM sigur með sigri í bráðabana á móti atvinnukylfing. Hún keppti fyrir hönd Íslands á EM og HM landsliða 18 ára og yngri með góðum árangri. Einnig var hún Íslandsmeistari U18 í holukeppni og önnur á stigalista GSÍ í unglingaflokki.

Við óskum þessum flottu kylfingum okkar innilega til hamingju með árangurinn í sumar!