Golf Mosfellsbær
Mosfellsbær, Ísland

Lög GM

Lög Golfklúbbs Mosfellsbæjar


1. gr.

Heiti og markmið

Félagið heitir Golfklúbbur Mosfellsbæjar, skammstafað GM. Heimili þess og varnarþing er í Mosfellsbæ. GM er aðili að Ungmennasambandi Kjalarnesþings (UMSK) og Golfsambandi Íslands (GSÍ).
Markmið félagsins er að skapa félögum sínum aðstöðu til að iðka golf og vinna að kynningu og útbreiðslu golfíþróttarinnar. Vallarsvæði félagsins eru Hlíðavöllur við Leirvog í Mosfellsbæ og Bakkakotsvöllur við Bakkakot í Mosfellsdal.

2. gr.

Félagsmenn

Félagið er opið öllum þeim sem starfa vilja innan vébanda þess í samræmi við gildandi lög og reglur þess.
Stjórn félagsins er heimilt að ákveða hámarksfjölda félagsmanna hverju sinni með hliðsjón af aðstöðu félagsmanna til golfiðkunar og álagi á vallarsvæði.
Stjórn er heimilt, í samráði við aganefnd félagsins, að synja umsókn um félagsaðild eða víkja félaga úr félaginu, enda sé ákvörðun rökstudd hverju sinni. Gerðarþoli getur skotið máli sínu til aðalfundar, sem úrskurðar þá endanlega í máli hans. Þó þarf 2/3 fundarmanna til að fella ákvörðun stjórnar og aganefndar.
Sækja skal um inngöngu í félagið rafrænt eða skriflega. Félagsstjórn getur ákveðið að setja þau skilyrði fyrir inngöngu í félagið að nýliðar sæki nýliðanámskeið til að læra undirstöðuatriði golfíþróttarinnar.
Úrsögn félagsmanna miðast við áramót og skal úrsögn send með sannanlegum hætti.

3. gr.

Félagsgjöld

Stjórn félagsins ákveður félagsgjöld og leggur fyrir aðalfund til staðfestingar.
Heimilt er að ákveða að samhliða almennum einstaklingsgjöldum skuli innheimta sérstök afsláttargjöld, t.d. barna- og unglingagjöld og gjöld fyrir eldri félagsmenn. Stjórn er heimilt að taka upp inntökugjald vegna nýrra félagsmanna. Þá er stjórn heimilt að að fella niður eða veita afslætti af félagsgjöldum í undantekningartilvikum þjóni það hagsmunum félagsins, svo sem þegar um sértækar aðgerðir til fjölgunar félagsmanna er að ræða.
Heimilt er að ákvarða félagsgjöld í mismunandi flokkum sem veita leikheimild á einu tilgreindu vallarsvæði félagsins eða báðum. Þá er heimilt að ákvarða sérstök félagsgjöld sem veita leikheimild á fyrirfram ákveðnum tímum.
Heimilt er að fella félagsmann af félagaskrá vegna greiðslubrests. Stjórn félagsins getur sett nánari reglur um innheimtu félagsgjalda og viðurlög við greiðslubresti.

4. gr.

Aðalfundur

Aðalfundur er æðsta úrskurðarvald í öllum málefnum félagsins. Aðalfund skal halda fyrir 31. desember ár hvert og skal boða til hans með dagskrá með tölvupósti til félagsmanna og á vefsvæði félagsins með a.m.k. tveggja vikna fyrirvara.
Tillögur til lagabreytinga skulu hafa borist stjórn fyrir 1. október og skulu þær kynntar í aðalfundarboði.
Heimilt er að bera upp á aðalfundi tillögur til breytinga á þeim lagabreytingatillögum sem kynntar hafa verið félagsmönnum. Þó er fundarstjóra heimilt að hafna því að taka slíkar breytingartillögur á dagskrá sé um veruleg efnisleg frávik að ræða frá upphaflegum tillögum.
Aðalfundur telst lögmætur ef löglega er til hans boðað.

5. gr.

Dagskrá aðalfundar

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  2. Skýrsla stjórnar um störf og framkvæmdir á vegum félagsins.
  3. Áritaðir reikningar kynntir.
  4. Umræður um skýrslu stjórnar og reikningar lagðir fram til samþykktar.
  5. Lagabreytingar.
  6. Rekstraráætlun komandi starfsárs kynnt.
  7. Ákvörðun félagsgjalda.
  8. Kosning stjórnar, formanns og tveggja skoðunarmanna reikninga.
  9. Kosning aganefndar og kjörnefndar.
  10. Önnur mál.

6. gr.
Fundarsköp aðalfundar

Á aðalfundi ræður einfaldur meirihluti greiddra atkvæða úrslitum. Þó þarf samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða til að breyta lögum félagsins. Atkvæðisrétt hafa allir félagsmenn sem hafa náð 18 ára aldri.
Fundarstjóra er heimilt að leggja til samþykktar boðun framhaldsaðalfundar telji hann þörf á slíku.
Framhaldsaðalfundur skal fara fram innan fjögurra vikna frá aðalfundi og skal boðað til hans með sama hætti og til aðalfundar félagsins, en með að lágmarki þriggja daga fyrirvara.

7. gr.
Félagsfundir

Stjórn félagsins boðar til almennra félagsfunda þegar þurfa þykir eða ef minnst 50 fullgildir félagsmenn óska þess skriflega. Skylt er að boða til félagsfundar þegar fyrir liggja meiriháttar ákvarðanir sem varða framtíð félagsins og fjárhagslegar skuldbindingar þess, sem nemi meira en helmingi félagsgjalda næstliðins árs. Boða skal til slíks fundar með sama fyrirkomulagi eins og um aðalfund væri að ræða og skal efni fundarins kynnt í fundarboði.

Á félagsfundum ræður afl atkvæða, nema um meiriháttar fjárskuldbindingar, en þá þarf samþykki 2/3 hluta atkvæða fullgildra fundarmanna eldri en 18 ára.

8. gr.
Stjórn félagsins og framkvæmdastjóri

Hlutverk stjórnarinnar er að framfylgja stefnumiðum félagsins eins og þau koma fyrir í 1. grein laganna.

Stjórn félagsins skal skipuð sjö mönnum, sem kosnir eru á aðalfundi. Sex eru kosnir til tveggja ára í senn, þrír í hvert sinn, en formann félagsins skal kjósa sérstaklega til eins árs í senn. Á aðalfundi skal jafnframt kjósa fjóra varamenn til eins árs í senn.Stjórnin skiptir með sér verkum. Ef þrír varamenn taka sæti í stjórn á milli aðalfunda, er kjörnefnd heimilt að leggja til boðun félagsfundar til að kjósa nýja varamenn.

Á aðalfundi skal kjósa þrjá félagsmenn í kjörnefnd til að annast framkvæmd kjörs til stjórnar félagsins á næsta aðalfundi. Framboð til formanns-, stjórnar- og varastjórnarkjörs skulu berast nefndinni fyrir 15. nóvember sent á netfang er birt skal á vefsíðu félagsins. Ef framboð til stjórnarsetu eru fleiri en þau sæti sem kjósa á um skal kjörnefnd hafa umsjón með kosningu milli frambjóðenda á aðalfundi og sjá til þess að framboð séu kynnt félagsmönnum fyrir aðalfund. Skal kjörnefnd gæta þess að jafnræði ríki við kynningu á frambjóðendum. Kjörnefnd getur án tillits til framboðsfrests hlutast til um að afla framboða frá félagsmönnum. Í störfum sínum skal kjörnefnd miða að því að í stjórn félagsins sitji hæfir einstaklingar af hvoru kyni og að hluti stjórnarmanna hafi reynslu af störfum fyrir félagið og þekkingu á starfsemi þess.
Kjörgengir sem stjórnarmenn eru allir atkvæðisbærir félagsmenn nema fastráðnir starfsmenn félagsins.
Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur félagsins og skal í þeim efnum fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem félagsstjórn hefur gefið. Hinn daglegi rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða mikils háttar. Slíkar ráðstafanir getur framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá félagsstjórn.

9. gr.
Nefndir

Félagsstjórn skipar þær nefndir sem starfa á vegum félagsins til eins árs í senn, nema aganefnd og kjörnefnd sem kosnar eru sérstaklega á aðalfundi á tveggja ára fresti. Stjórn getur skipað nefndir til skemmri tíma til að sinna sérstökum, tímabundnum verkefnum.
Félagsstjórn skal setja reglur um starfsemi nefnda félagsins. Þá er félagsstjórn heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd laga félagsins og starfsemi þess. Reglugerðir þessar öðlast gildi við birtingu þeirra á vefsvæði félagsins og ber félagsmönnum að virða þær.

10. gr.
Umgengnisreglur

Sérhverjum félaga er skylt að fara eftir þeim reglum sem settar eru um golfleik, umferð og umgengni á golfvöllum félagsins og í húsakynnum þess. Um störf og leik skal farið eftir golfreglum R&A og siðareglum ÍSÍ eins og þær eru á hverjum tíma. Félagsstjórn, í samráði við aganefnd, getur látið brot gegn settum reglum varða réttindamissi eða brottrekstri úr félaginu ef um ítrekaðar eða miklar sakir er að ræða.

11. gr.
Reikningsár

Reikningsár félagsins er frá 1. nóvember til 31. október. Reikninga ber að leggja fram til samþykktar á aðalfundi.

Ákvæði til bráðabirgða; Reikningsárið sem hófst 1. október 2020 verður 13. mánuðir og lýkur 31. október 2021

12. gr.
Fundargerðir

Stjórn skal sjá til þess að haldnar séu fundargerðir aðalfunda, félagsfunda og stjórnarfunda. Stjórn skal vista fundargerðir ásamt fundargögnum á tryggilegan hátt. Fundargerð aðalfundar og fundargögn skal birta félagsmönnum á vefsvæði félagsins.

13. gr.
Félagsslit

Tillaga stjórnar um að félagið hætti störfum skal borin upp á sérstökum félagsfundi sem boða skal til með sama hætti og um aðalfund væri að ræða. Til lögmætis slíkrar ákvörðunar þarf helmingur skráðra félaga að vera á fundi og 2/3 hlutar þeirra að greiða tillögunni atkvæði sitt. Mæti ekki nægilega margir skal boða til annars fundar innan þriggja vikna og er hann þá ályktunarhæfur án tillits til fundarsóknar, sé löglega til hans boðað. Sama gildir ef sameina á félagið eða skipta því.


Lög þessi öðlast þegar gildi.
Þannig samþykkt á aðalfundum Golfklúbbsins Kjalar og Golfklúbbs Bakkakots 2014.
Þannig samþykkt á aðalfundi Golfklúbbs Mosfellsbæjar 15. desember 2016.

Þannig samþykkt á aðalfundi Golfklúbbs Mosfellbæjar 19. nóvember 2020.


.