Golf Mosfellsbær
Mosfellsbær, Ísland

Reglur/Skjöl

UMGENGNISREGLUR Á VALLARSVÆÐUM GOLFKLÚBBS MOSFELLSBÆJAR


LEIKUR FÉLAGSMANNA Á VALLARSVÆÐUM GM

Einungis fullgildir félagsmenn GM sem gert hafa upp árgjald viðkomandi árs hafa leikheimild á vallarsvæðum GM.

Fjögurra daga bókunarfyrirvari er á velli félagsins fyrir GM félaga og opnað er fyrir skráningu kl. 20:00 kvöldi fyrir fyrsta bókunardag. Á þessum fjórum dögum er leyfilegt að vera með þrjár virkar bókanir. Ef viðkomandi er með þrjár virkar bókanir er hægt að bóka sig samdægurs á þann dag sem engin bókun er með því að hafa samband við afgreiðslu GM.

Utanfélagsmenn geta bókað sig með tveggja daga fyrirvara og er opnað fyrir skráningu kl. 20:00 kvöldið fyrir bókunardag.


 • Allir félagsmenn verða að skrá sig rástíma í golfboxinu
 • Allir félagsmenn verða að staðfesta komu í rástíma í afgreiðslu
 • Nauðsynlegt er að afbóka rástíma ef kylfingur sér ekki fært um að mæta á rástíma sinn og skal það gert með að lágmarki 2 klst fyrirvara
 • Mæti félagsmaður ekki á rástíma sinn án þess að afbóka fær viðkomandi aðvörun, gerist það aftur fær viðkomandi bann frá rástímabókun í eina viku
 • Óheimilt er að bóka rástíma á ranga kennitölu
 • Óheimilt er að bóka rástíma án vitneskju viðkomandi kylfings
 • Óheimilt er að hefja leik eftir að rástími er liðinn

Allir sem koma á vellina okkar þurfa að skrá sig inn á völlinn með QR kóða sem er við hlið afgreiðslunnar okkar á Hlíðavelli og í andyri golfskálans í Bakkakoti. Ef félagsmaður mætir ekki á skráðan rástíma, þá kemur hann í veg fyrir það að annar félagsmaður getur nýtt rástímann. Viðurlögin eru:

 • 1 brot, áminning
 • 2 brot, áminning
 • 3 brot, lokað fyrir rástímaskráningu í 7 daga
 • 4 brot, lokað fyrir rástímaskráningu í 14 dagaLEIKUR GESTA Á VALLARSVÆÐUM GM

Gestir skulu ganga frá greiðslu vallargjalds áður en leikur hefst og hafa kvittun um greiðslu vallargjalda undir höndum. Er þetta forsenda fyrir leikheimild.

 • Allir gestir verða að skrá sig í rástíma í golfboxinu
 • Allir gestir verða að staðfesta komu í rástíma inn í afgreiðslu
 • Nauðsynlegt er að afbóka rástíma ef kylfingur sér ekki fært um að mæta á rástíma sinn og skal það gert með að lágmarki 2 klst fyrirvara
 • Kylfingur sem hefur leik á vellinum án þess að hafa til þess heimild, telst hafa skuldbundið sig til greiðslu vallargjalds með 50% álagi.

Forbókun á rástímum.

Þegar að um forbókun er að ræða á rástímum á völlum GM þarf að afbóka slíka tíma með a.m.k. 24 klst fyrirvara. Sé það ekki gert er greitt fyrir alla þá tíma sem bókaðir voru.

Fyrirtækjakort, GSÍ kort, vinavallagjöld og önnur afsláttarkjör gilda ekki í forbókunum.


Utan opnunartíma skála er óheimilt að leika á hvers konar fríspili eða öðrum samningum um slíkt. Engar undantekningar eru gerðar þar á.


ALMENNAR UMGENGNISREGLUR

 • Sérhver kylfingur skal hafa eigið golfsett til að leika með. Ekki er heimilt að deila golfsetti milli leikmanna.
 • Kylfingar skulu vera snyrtilegir til fara og taka í hvívetna tillit til annarra leikmanna á vallarsvæðinu.
 • Ekki skal viðhafa háreysti og læti og ölvun er óheimil. Notkun farsíma og rafeindatækja skal stilla í hóf og aldrei þannig að valdi truflun.
 • Allir kylfingar sem hefja leik á vallarsvæðum GM skuldbinda sig til að fara eftir öllum umgengnisreglum sem í gildi eru.


SÉRSTAKLEGA VARÐANDI GOLFLEIK

Leikhraði

Stefnt skal að því að fjórir leikmenn í ráshópi séu ekki lengur en fjóra klukkutíma að leika 18 holu hring á Hlíðavelli

Kylfingar skulu huga alveg sérstaklega að leikhraða og að halda í við næsta ráshóp á undan. Leikum golf hratt, örugglega og skemmtilega á vallarsvæðum GM og njótum síðan samveru og samskipta eftir hring.

Til þess að halda uppi leikhraða skulu kylfingar stilla æfingasveiflum í hóf, ganga rösklega milli þess er þeir slá bolta sinn, yfirgefa flötina um leið og leik er lokið og ganga strax á næsta teig. Kylfingar skulu ávallt vera meðvitaðir um þá sem á eftir koma. Ef braut/flöt er auð þegar komið er á teig er mikilvægt að kylfingar hefji leik strax og sá leikmaður sem fyrstur er tilbúinn hefur strax leik.

Kylfingar skulu gæta þess að hleypa fram úr strax og ástæða er til, svo sem vegna leitar að týndum bolta og/eða ráshópurinn hefur dregist aftur úr næsta hópi á undan.

Kylfingar ættu við þær aðstæður sem golfreglurnar leyfa að leika varabolta til þess að flýta leik.

Mælst er til þess að leikmenn noti Stableford punktakerfi við æfingahringi og taki boltann upp þegar útséð er um að punktur fáist á viðkomandi holu.

Leikmenn sem ekki halda leikhraða eða eru punktalausir á holu skulu taka bolta sinn upp.


Leit að bolta

Kylfingar hafa samkvæmt golfreglum 3 mínútur til þess að leita að sínum bolta og biðjum við ykkur um að virða ávallt þau tímamörk við leit.

Leit að boltum utan vallarmarka er ekki leyfileg.


Almenn tilmæli

Óheimilt er að fara á milli brauta í annarri röð en fram kemur á skorkorti og brautarskiltum. Valdi kylfingar töfum við að leika í annarri röð en ætlast er til missa þeir stöðu sína á vellinum.

Leikmenn skulu ganga vel um vallarsvæði og ekki skilja eftir rusl nema í ruslafötum við teiga. Setja skal torfusnepla í kylfuför ásamt því að gera við boltaför á flötum. Fullar æfingasveiflur á teigum eru ekki leyfðar. Kylfuför eftir æfingahögg eru ekki leyfileg á brautum. Leikmenn skulu raka vel eftir sig í sandglompum og leggja hrífur niður í glompu í leikstefnu.

Virða skal allar afmarkanir sem settar eru upp með böndum, spotta, keilum, stöngum eða með öðrum hætti. Leikmenn skulu hlífa augljóslega viðkvæmum svæðum. Óheimilt er að fara með bíla, kerrur eða annað búnað inn á teiga, flatir og forflatir.

Félagsmenn og gestir skulu hlíta öllum tilmælum vallarstarfsmanna á vallarsvæði. Óheimilt er að slá í átt að vallarstarfsmönnum við störf. Bíða skal merkis þeirra um að óhætt sé að slá.LEIKUR UTAN HEFÐBUNDINS OPNUNARTÍMA VALLARSVÆÐA

Félagsmönnum í GM er heimilt að leika á vallarsvæðum séu þau opin fyrir leik utan hefðbundis opnunartíma.

Engin vallargjöld eru seld utan opnunartíma og er því öll umferð annarra en félagsmanna með öllu óheimil.


ÆFINGASVÆÐI GM

Æfingasvæði GM eru opin þeim kylfingum sem fara eftir almennum umgengnisreglum GM.

Óheimilt er með öllu að tína æfingabolta upp til að nota. Einungis skal nota bolta sem greitt hefur verið fyrir. Allir golfboltar á svæðinu eru eign GM og er óheimilt að fjarlægja þá eða slá út fyrir mörk æfingasvæðis og bera kylfingar alla ábyrgð á því.

Rétt að benda kylfingum á að þeir bera sjálfir alla ábyrgð á þeim golfboltum sem þeir slá hvort sem þeir enda innan svæðis GM eða utan þess.

Öll högg skal slá af gervigrasi og/eða mottum. Sé leyft að slá af grasi er það svæði afmarkað með merktum línum. Óheimilt er að slá utan merktra lína á grasi.


Eftirlit á völlum GM

Eftirlit með leik, leikhraða og umgengni á völlum er í höndum eftirlitsmanna GM

Þeim sem leika velli GM er skylt að hlíta fyrirmælum eftirlitsmanns.

Verði félagsmaður uppvís að alvarlegu broti á reglum þessum ber starfsmönnum að tilkynna það til stjórnar GM. Stjórn GM getur veitt kylfingi áminningu eða beitt tímabundinni útilokun frá leik á völlum félagsins.GOLFBÍLAR

Allir þeir sem aka golfbílum á vallarsvæðum GM skulu annaðhvort halda sig á slegnum svæðum eða á göngustígum. Óheimilt er að keyra nær flötum en 10 metra nema þar sem það er nauðsynlegt til að fara á milli brauta.

GM hefur til útleigu golfbíla fyrir gesti á vallarsvæðum GM og hægt er að panta golfbíla með fyrirvara með því að hringja í afgreiðslu. Leigjendur skulu fylgja öllum reglum um notkun á golfbílum og bera þeir alla ábyrgð á golfbílnum á meðan á leigu stendur. Einnig er óheimilt að nota golfbílana á annan hátt en þeim er ætlað.

Brot á umgengnisreglum getur varðað brottvísun af vallarsvæði og/eða frekari málarekstur. Ítrekuðum brotum félagsmanna skal vísa til aganefndar Golfklúbbs Mosfellsbæjar til úrvinnslu.