Golf Mosfellsbær
Mosfellsbær, Ísland

Öldungastarf

Starf kylfinga 65 ára og eldri í Golfklúbbi Mosfellsbæjar

Á vordögum 2022 var skipuð nefnd til þess að halda utan um starf kylfinga í GM sem hafa náð 65 ára aldri.

Með hliðsjón af markmiðum GM býður klúbburinn 65+ hópnum aðgang að aðstöðu félagsins alla miðvikudagsmorgna sumar og vetur. Við þökkum stjórnendum GM velvild þeirra og stuðning við stofnum GM 65+ hópsins.

Við nýtum að sjálfsögðu dagana okkar vel og höfum miðvikudagsviðburði sumar, vetur, vor og haust.

STARFSEMI GM 65+

Nefnd var stofnuð og skipti hún með sér störfum á fyrsta nefndarfundi sem haldinn var 31. mars 2022. Hrefna Birgitta Bjarnadóttir formaður, Páll Eyvindsson gjaldkeri, Ingveldur Bragadóttir ritari, Bragi Jónsson varaformaður, Sigurður Geirsson, Svanberg Guðmundsson, Snorri Hlíðberg meðstjórnendur.

Nefndin setti sér strax markmið og gildi í samræmi við óskir GM og var hvoru tveggja kynntá stofnfundi GM 65+, 11. maí 2022 ásamt fyrstu sumardagskrá 65+ hópsins.

MARKMIÐ GM 65+

  • 1.Efla félagsleg tengsl eldri kylfinga GM
  • 2.Setja fókus á fræðslu og heilsueflandi áhrif golfs
  • 3.Bæta golftækni miðað við líkamsgetu og aldur

GILDI OG LEIÐARLJÓS GM 65+

1.Virðing

2.Umburðarlyndi

3.Hjálpsemi

4.HÚMOR OG GLEÐI

SUMARDAGSKRÁ 65+

Sumardagskráin fjallar að sjálfsögðu um samveru, golf og útiveru á miðvikudögum. Við skiptumdögunum upp og höfum breytileika í viðburðadagskránni þannig að allir finni eitthvað við sitt hæfi. Markmiðið er að pláss sé fyrir okkur öll, hvar sem við erum stödd í forgjöf og getu.

Við setjum upp m.a.: miðvikudags-sumarmót 65+ á Hlíðarvelli, leikjadaga í Bakkakoti eða á Hlíðarvelli, vinaferðir á nærliggjandi golfvelli. Við hvetjum til samverustunda og spjalls á BLIK sem gefur GM 65+ 20% afslátt á veitingum alla miðvikudaga.

VETRARSTARF 65+

Þegar kólnar í veðri flytjum við miðvikudags starfsemi GM 65+ inn á neðri hæð klúbbhússins.

Húsið opnar klukkan 08:45 þar sem „Palli á posanum“ tekur á móti 1000 kr. þátttökugjaldi og býður félagsmönnum upp á heitt kaffi og meðlæti.

Vetrardagskráin fylgir eftir markmiðum okkar og býður meðal annars upp á; púttkeppni, púttleiki, golfherma-kennslu, -æfingar og -keppni, bingó, félagsvist og heimsóknir fagmanna sem flytja fræðsluerindi um efni tengd golfi og heilsu eldri kylfinga.

Formlegri dagskrá lýkur um kl.11:30 og þá tilvalið að hittast á BLIK og nýta GM 65+ 20% afsláttinn.

GOLFHERMAR

GM 65+ hefur frían aðgang að golfhermum miðvikudagsmorgna milli kl. 09:00 og 11:00. Þennan tíma viljum við nýtta til golfhermakennslu og æfinga þeirra sem eru að stíga sín fyrstu skref í hermum. Með þessu viljum við hvetja og styðja fleiri 65+ félaga til að nýta sér möguleika hermanna til æfinga.

Þeir sem lengra eru komnir í notkun hermanna geta skráð sig eftir kl. 11:00 og aðra virka daga frá kl. 09:00 til 14:00 og greiða þá aðeins 2000 kr. á klukkustund. Til að fá GM 65+ afsláttinn þarf að skrá sig gegnum skrifstofu GM.

HVERJIR GETA TEKIÐ ÞÁTT Í GM 65+ STARFINU?

Allir skráðir félagsmenn í Golfklúbbi Mosfellsbæjar sem eru 65 ára eða eldri. Nýskráning í GM 65+ miðast við almanaksárið og eru þeir sem verða 65 ára á árinu gjaldgengir frá áramótum þess árs.Einnig er yngri mökum GM 65+ félaga velkomið að taka þátt í viðburðum en geta þó ekki unnið til verðlauna í GM 65+ mótum.

HVERNIG HEFUR GENGIÐ?

Starfsemi GM 65+ fór rólega af stað vorið 2022 en það er óhætt að segja að rólegheitin hafi fljótlega farið af hópnum og þátttaka farið fram úr björtustu vonum. Sem dæmi voru um 20 manns í fyrstu vinaferð hópsins á Akranes 1. júní en rúmlega 50 manns í ferð á Flúðir í lok sumars. Í byrjun árs 2023 eru yfir 150 virkir þátttakendur í starfi GM 65+ kylfinga.

Vetrarstarfið hefur einnig gengið vonum framar, þátttaka mikil enda dagskráin fróðleg og fjölbreytt.

Nýir félagsmenn bætast í hópinn og bendum við þeim á FB samskiptasíðu okkar; GM snillingar 65+ .Á þeirri síðu birtast auglýsingar um væntanlega viðburði GM 65+ og myndir og spjall um fyrri viðburði.

Við viljum hvetja 65+ félagsmenn GM að taka þátt í skemmtilegu og uppbyggilegu félagsstarfi þar sem ávalt er pláss, mikið hjartarými og öll velkomin.

Kær kveðja

GM 65+ nefndin.