Golf Mosfellsbær
Mosfellsbær, Ísland

Evrópumót golfklúbba - Ferðasaga

12.10.2023
Evrópumót golfklúbba - Ferðasaga

Í byrjun mánaðarins fóru GM stúlkurnar Eva og Sara Kristinsdætur ásamt Berglindi Erlu Baldursdóttur til Pravets í Búlgaríu að keppa á Evrópumóti Golfklúbba (e. European Ladies´ Club Trophy). Með þeim í för var Katrín Dögg Hilmarsdóttir fararstjóri og þjálfari. Stelpurnar kepptu fyrir hönd Golfklúbbs Mosfellsbæjar í þessu skemmtilega móti, en þær unnu sér inn þátttökurétt í mótinu eftir að hafa landað Íslandsmeistaratitli í sumar ásamt sveit GM.

Ferðalagið til Búlgaríu var nokkuð langt, hópurinn þurfti að millilenda í London og taka tengiflug þaðan til Sofíu. Stelpurnar voru því nokkuð lúnar þegar lent var í Sofíu höfuðborg Búlgaríu og voru þakklátar að sjá starfsmann golfklúbbsins taka á móti okkur til að aka okkur að hótelinu.

Mótið fór fram í Pravets, sem er í klukkutíma fjarlægð frá flugvellinum. Svæðið er einstaklega fallegt. Mikið landslag einkennir svæðið og mikið skóglendi. Svæðið er vinsælt útivistarsvæði heimamanna, gott til göngu og hjólreiða. Golfvöllurinn og hótelið liggja við stórt stöðuvatn sem bætti enn frekar við fegurðina. Hótelið er nýlegt, virkilega fallegt og huggulegt. Stelpurnar voru í góðu yfirlæti þar og nýttu sér sundlaugar- og sólbaðsaðstöðu hótelsins að loknu golfi til að hlaða orkuna.

Stelpurnar voru í eina viku í Búlgaríu, þar af voru tveir æfingadagar og þrír keppnisdagar. Vegna flugskipulags hafði hópurinn því einn frídag í lok ferðar sem nýttur var í höfuðborginni Sofíu.

Völlurinn var ansi krefjandi, þröngar brautir og víða hindranir. Grínin voru svo eins og best verður á kosið. Stelpurnar stóðu sig mjög vel í ferðinni, sýndu mikinn metnað í undirbúningi og keppni. Þær áttu erfiðan fyrsta keppnisdag en annar og þriðji dagur voru betri. Þær höfnuðu í 9. sæti af 16 liðum sem verður að teljast góður árangur. Sigurvegarar mótsins komu frá Frakklandi, Danir höfnuðu í öðru sæti og í þriðja sæti voru Þjóðverjar.

Á mótinu voru mjög sterkir kylfingar, þar á meðal nokkrar stelpur sem kepptu fyrir hönd Evrópu í Ryder Cup junior í september s.l. Þátttaka í alþjóðlegum mótum er mjög mikilvæg reynsla fyrir afrekskylfinga sem ætla sér stóra hluti í íþróttinni. Stelpurnar eru því afar þakklátar fyrir þetta tækifæri og fyrir stuðning golfklúbbsins.

Kv.

Katrín Dögg Hilmarsdóttir

Í Sofíu, höfuðborg Búlgaríu