Mosfellsbær, Ísland

Evrópumót golfklúbba - ferðasaga

06.10.2022
Evrópumót golfklúbba - ferðasaga

Eftir sigur okkar í kvennaflokki í Íslandsmóti golfklúbba í sumar þá fengum við þátttökurétt í Evrpópumóti golfklúbba sem var leikið í Slóveníu um liðna helgi. Lið GM var skipað eftirfarandi kylfingum. Arna Rún Kristjánsdóttir, María Eir Guðjónsdóttir og Sara Kristinsdóttir. Liðstjóri var Guðleifur Kristinn Stefánsson og með í för voru einnig þeir Davíð Gunnlaugsson og Dagur Ebenezarson.

Kiddi liðstjóri taka saman smá ferðasögu sem við birtum hér að neðan :)

Eftir þriggja mánaða þurrkatíð og mikinn hita í Lubljana þá var tekið á móti okkur með Íslensku sumarveðri, 12°c og rigningu.

22 klst ferðalag sat aðeins í okkur og bar fyrri æfingahringurinn þess merki. Stelpurnar reyndu eins og þær gátu að skoða völlinn vel og velja sér lendingarsvæði fyrir höggin með vallaraðstæður í huga þar sem völlurinn var nánast á floti. Flestar glompur eins og fínasta sundlaug og ekkert rúll á brautum.

Á seinni æfingahringnum var völlurinn örlítið skárri hvað varðar bleytu og fengum við bara smá rigningu. Stelpurnar komu vel hvíldar og gíraðar inn í daginn og spilamennskan mjög fín. Um kvöldið var opnunarhátíðin þar sem að liðin voru kynnt og boðið var upp á smá hressingu sem var í formi ávaxta í föstu og fljótandi formi enda alvaran að byrja næsta morgun.

Fyrsti keppnisdagurinn er runninn upp og veðurspáin ekki með okkur í liði. Stefnt var á að ná eins mörgun holum og hægt væri þar sem að þrumur og eldingar voru í kortunum. Ákveðið var að hafa shotgun ræsingu (ræst út samtímis á öllum teigum) og stelpurnar spiluðu flott golf, Sara var að spila frábært golf, María kom mjög vel til baka eftir erfiða byrjun og Arna átti í miklu basli við að lesa hraðan á flötunum en var að slá virkilega vel. Ekki tókst að spila nema 7-9 holur þennan dag og þá var best að koma sér upp á hótel og þurrka allt saman. Planið var að reyna að klára þennan hring eftir hádegi næsta dag.

Föstudagurinn gengur í garð og úti er lítil rigning, hitinn þó orðinn aðeins meiri en síðustu daga. Það tókst að klára hringinn og stóðu stelpurnar sig mjög vel, María spilaði frábærlega og Sara og Arna spiluðu flott golf. Eftir 18 holur þá var ljóst að við myndum ekki ná að spila nema 36 holur í mótinu, staðan í mótinu var frekar jöfn og við í 10-14 sæti.

Lokadagurinn byrjaði vel þar sem að sólin var að gera vart við sig og stelpurnar staðráðnar í að gera sitt allra besta og rífa sig upp töfluna. Arna var á eldi og spilaði stórkostlegt golf og á 12. holu þurfti liðsstjórinn að rifja upp sjúkraliða taktana þar sem að í miðri púttstroku er hún stungin af geitungi sem skildi oddinn eftir í henni, sem betur fer fór þetta allt vel og hafði ekki áhrif á síðustu holurnar. María spilaði einnig frábært golf fyrir utan smá hikst á þremur holum. Sara var í smá basli á flötunum á fyrri 9 holunum en kom til baka og spilaði vel.

Stelpurnar náðu að lyfta sér upp um nokkur sæti og var niðurstaðan 8. sæti og er það næst besti árangur Íslands frá upphafi en 7. sæti er það besta hingað til.

Lokahófið fylgdi svo í kjölfarið þar sem að þær frönsku voru krýndar meistarar og voru þær vel að því komnar.

Þá var komið að heimför eftir vel heppnað (sund) mót þar sem að okkar stelpur stóðu sig frábærlega og voru GM til mikils sóma.

Áfram GM

Kær kveðja

Liðstjórinn