Golf Mosfellsbær
Mosfellsbær, Ísland

Golfklúbbur Mosfellsbæjar og Golfklúbburinn Leynir í samstarf

11.03.2021
Golfklúbbur Mosfellsbæjar og Golfklúbburinn Leynir í samstarf

Í hádeginu í dag skrifuðu forsvarsmenn GL og GM undir viðamikinn samstarfssamning sín á milli.

Samningurinn tekur á ýmsum þáttum er varðar vallarstjórn og faglegri umhirðu, með möguleika á útvíkkun samstarfsins, sem snýr m.a. að golfkennslu, nýtingu tækja og annarra þátta.

Aukinheldur fá félagsmenn beggja klúbba að njóta samstarfsins með góðum vinavallarsamningi sem felur m.a. í sér að vallargjald verður umtalsvert lægra en í venjulegum vinavallasamningum auk þess sem meðlimir GM og GL fá tækifæri til þess að bóka rástíma með dags fyrirvara umfram aðra gestaspilara á völlum klúbbanna.

Er það okkar von að þetta samstarf leiði til umtalsverðrar hagræðingar í rekstri klúbbana á komandi árum ásamt því að auka þá þjónustu sem okkar meðlimir fá í gegnum sitt árgjald.

Forsvarsmenn klúbbanna lýsa yfir mikilli ánægju með samninginn og hlakka verulega til samstarfsins.

Á meðfylgjandi mynd sem tekin var við undirskriftina í dag eru Kári Tryggvason formaður Golfklúbbs Mosfellsbæjar og Pétur Ottesen formaður Golfklúbbsins Leynis.


Eins og fram kemur hér að ofan þá munu okkar félagsmenn njóta sérstakra kjara á glæsilegum Garðavelli þeirra Leynismanna. Garðavöllur hefur ávallt verið í flokki með allra bestu golfvöllum landsins og er það því mikið ánægjuefni fyrir okkur GM félaga að hafa greiðari aðgang að þeim velli en verið hefur. GM félagar munu hafa lengri bókunarfyrirvara á rástímum en meðlimir annara golfklúbba auk þess sem vallargjaldið verður einungis 2.500 per hring.

Við hvetjum okkar kylfinga til þess að nýta sér þessa frábæru viðbót sem Garðavöllur er í okkar félagsaðild og njóta þess að spila golf á frábærum golfvelli :)