Golf Mosfellsbær
Mosfellsbær, Ísland

Kristján Þór í þriðja sæti í Íslandsmótinu í holukeppni

25.06.2024
Kristján Þór í þriðja sæti í Íslandsmótinu í holukeppni

Logi Sigurðsson, GS, er Íslandsmeistari í holukeppni karla 2024 en hann sigraði Jóhannes Guðmundsson, GR, 3&2 í úrslitaleiknum sem fram fór í dag á Garðavelli á Akranesi.

Kristján Þór Einarsson, GM, varð þriðji en hann sigraði Jóhann Frank Halldórsson, GR, á lokaholunni í leiknum um bronsverðlaunin.

Kristján Þór og Kristófer Karl komust í gegnum 36 holu höggleikinn sem leikinn var á laugardeginum en Kristófer lék í 8 manna bráðabana þar sem keppt var um 7 sæti í holukeppninni.

Kristján Þór lék hringina á 69-72 eða 3 höggum undir pari en hann fór holu í höggi á þriðju holunni á fyrsta hring.

Kristófer Karl lék hringina tvo á 73-72 eða einu höggi yfir pari.

Því miður lentu okkar kylfingar á móti hvorum öðrum í fyrsta leik en eftir mjög spennandi leik fékk Kristján Þór örn á fyrstu holu í bráðabana og tók þar með Kristófer úr leik.

Kristján lék á móti Hjalta Hlíðberg úr GKG eftir hádegi á sunnudeginum og vann þann leik með um 7 metra pútti á lokaholunni til að vinna 1/0.

Kristján lék þá á móti Jóhannesi Guðmundssyni úr GR í undanúrslitun en tapaði á 17. holu eftir erfiðan leik þar sem Jóhannes lék mjög flott golf.

Leikurinn upp á þriðja sætið var á móti Jóhanni Frank úr GR og byrjaði Jóhann með látum og fékk fugl á fyrstu tvær holurnar og strax upp í leiknum. Jóhann var upp allan leikinn þar til Kristján náði loks að jafna á 17. holu. Sló Kristján þá besta högg dagsins eða um fet frá holu á 18. holu Garðavallar sem er par 3 og kláraði leikinn og tryggði sér bronsverðlaun í mótinu.

Kristján hefur sigraði í Íslandsmótinu í holukeppni tvisvar, árin 2009 og 2014.

Við óskum Kristjáni innilega til hamingju með árangurinn!