22.11.2023
Eva Kristinsdóttir landsliðskylfingur í GM lauk móti á Global Junior mótaröðinni í Portúgal í þriðja sæti en á fyrsta hring mótsins fór hún holu í höggi á 8. braut vallarins.
Global Junior mótaröðin hefur komið til Íslands síðustu tvö ár á Hlíðavöll en mótið heitir Icelandic Junior Midnight Challenge. Eva Kristinsdóttir sigraði á því móti í sumar og fékk í verðlaun þátttökurétt eitt Global Jr. mót í Portúgal en í þessari ferð leikur hún á tveim mótum, GJG Junior Trophy sem lauk í gær og GJG Portuguese Junior Classics sem hefst á morgun.
GJG Junior Trophy var leikið á Praia D´el Rey golfvellinum og voru leiknir 3 hringir og er parið á vellinum 73. Eva lék hringina á 75-78-80 höggum eða 14 höggum yfir pari og endaði í 3. sæti í sínum aldursflokki. Alls fékk Eva 7 fugla og 2 erni í mótinu en annar arnanna var hola í höggi á 8. holu á fyrsta hring. Holan var 84 metrar yfir vatn og notaði hún sandjárn.
8. hola vallarins þar sem Eva fékk holu í höggi
Við óskum Evu innilega til hamingju með höggið og flottan árangur. Hún keppir aftur á morgun á GJG Portuguese Junior Classics mótinu sem fer fram á West Cliffs vellinum einnig í Portúgal.