Golf Mosfellsbær
Mosfellsbær, Ísland

Staðan á völlum klúbbsins

12.04.2023
Staðan á völlum klúbbsins

Kæru GM félagar.

Vorboðinn ljúfi, Masters mótið, vekur alltaf von í brjósti kylfinga um að opnað verði inn á velli landsins von bráðar. Ekki spillir fyrir einn stakur sólardagur líkt og annar í páskum bauð okkar uppá. Þá er tímabært fyrir vallastjóra að rífa mannskapinn niður á jörðina aftur og minna á hnattræna stöðu og kuldakastið fyrr á árinu.

Frost er enn í jörðu, eins og búast má við eftir þær miklu frosthörkur sem við gengum í gegnum. Frostið hefur náð niður á 80cm dýpi, sem er sennilega það mesta sem undirritaður hefur séð á þessum slóðum á tæplega 30 ára starfsferli. Á Hliðavelli var grynnst niður á frost um 10 cm en dýpst um 30 cm. Í Bakkakoti vorum við að komast á frost í 7-15 cm dýpi.

Slagviðris rigningar síðustu daga koma sér einstaklega vel. Því meiri rigning því betra, það hraðar bráðnun neðar í jarðveginum. En fyrir vikið er völlurinn mjög viðkvæmur og jarðvegur víða mjúkur og sporast mikið í honum ef gengið er á. Við biðjum því þá kylfinga sem eru að spila vetarvöllinn að ganga einstaklega varlega um. Það er auðvelt að valda tjóni á þessum árstíma.

Það er ljóst að í Bakkakoti sat meiri snjór á vellinum í vetur, og það varði hann að nokkru leyti fyrir verstu vetrarhörkunum. Fyrir vikið eru flatir grænni í Bakkakoti en á Hlíðarvelli, en það er ekki víst að Bakkakotið verði fyrr til þar sem að hægar hefur gengið að bræða frostið í jarðveginum.

Það er þó ljóst að við munum gera okkar allra besta til að koma öllum í golf sem fyrst. Ólíklegt verður að teljast að það takist fyrir apríl lok, nema að allir kylfingar sýni samstöðu sína í því að biðja til veðurguðanna góðu og óski eftir alvöru suð-vestan slagviðri með góðum hita og ofgnótt af rigningu. Á meðan er að sjálfsögðu hægt að komast í golf í golfhermunum.

Vorkveðja

Vallastjóri.