Kæru félagsmenn, gleðílegt sumar.
Búið er að ákveða opnunardaga á golfvöllum GM. Hlíðavöllur opnar á sunnudaginn og svo opnar Bakkakotið í næstu viku, nánar tiltekið fimmtudaginn 9. Maí.
Vellirnir koma virkilega vel undan vetri og hlökkum við til að taka á móti ykkur. Tíðin undanfarið hefur verið ágæt, aðeins of þurrt undanfarið, en nú hefur rignt vel og þá taka brautir og röff vel við sér og græni liturinn verður fljótlega allsráðandi.
Flatirnar á Hlíðavelli líta mjög vel út og ég man ekki eftir að hafa séð þær svona góðar á þessum árstíma. Það er mikið fagnaðarefni eftir erfitt sumar 2023. Flatirnar í Bakkakoti er líka virkilega góðar, einungis flatir 2. og 8 sem eiga aðeins í land en þær verða fljótar til. Bjarni vallastjóri og hans fólk hafa unnið gott starf í vetur og verið dugleg að dekstra við flatirnar sem eru að skila sér í því að þær hafa líklega sjaldan litið jafnvel út og þær gera í dag.
Það eru ýmsar framkvæmdir sem hafa verið í gangi hjá okkur og við höfum reynt að vera dugleg að upplýsa ykkur um þá vinnu sem erum í gangi hverju sinni. Helstu framkvæmdir hafa verið eftirfarandi:
- Drenlagnir settar í 16. braut á Hlíðavelli
- Sjálfvirkt vökvunarkerfi sett í fleiri flatir og teiga á Hlíðavelli
- Garðskáli í Bakkakoti kláraður að utanverðu
- Golfskálinn í Bakkakoti tekinn í gegn, eldhús lagfært, afgreiðslusvæði breytt og ný húsgögn í sal.
Ásamt ofangreindu er ávallt fullt af verkefnum sem þarf að ganga í og miða þau öll að því að hafa golfvellina í eins góðu ástandi og völ er á hverju sinni.
Við hlökkum svo sannarlega til þess að taka á móti ykkur á sunnudaginn á Hlíðavelli. Vellirnir okkar eru að sjálfsögðu einungis opnir fyrir GM félaga til að byrja með og vonum við svo sannarlega að þið eigið eftir að eiga gott golfsumar.
Ég minni á vinnudaginn sem fram fer á morgun laugardag og vonandi mætið þið sem flest og aðstoðið okkur við að klára þá vinnu sem þarf að fara í fyrir opnun.
Að lokum er mikilvægt að við öll berum virðingu fyrir golfvellinum og göngum vel um og þá sérstaklega núna þar sem þeir eru viðkvæmir eftir veturinn. Lágmörkum allar skemdir með góðri umgengni og lögum það sem aflaga fer. Brautirnar eiga aðeins í land og því mikilvægt að sýna nærgætni.
Gleðilegt golfsumar og hlakka til að sjá ykkur á golfvellinum í sumar.
Golfkveðja.
Kári Tryggvason, formaður GM.