Golf Mosfellsbær
Mosfellsbær, Ísland

Opnun Hlíðavallar - fréttir af innanfélagsmótum GM

16.05.2023
Opnun Hlíðavallar - fréttir af innanfélagsmótum GM

Ágætu GM félagar.

Tekin hefur verið ákvörðun um að opna holur 10 - 18 á Hlíðavelli næstkomandi fimmtudag, 18. maí. Skráning opnar í golfboxinu kl. 16:00 í dag.

Veturinn sem nú er vonandi búinn að kveðja okkur var mjög sérstakur og hefur gert okkur talsvert erfitt fyrir þar sem þetta hefur allt farið frekar rólega af stað hjá okkur. Veturinn hefur verið mjög óvenjulegur að því leitinu til að það var umtalsvert frost á bera jörð. Það hefur þær afleiðingar í för með sér að frostið nær umtalsvert djúpt ofan í jörðu auk þess sem grasplantan getur hreinlega drepist þegar frost fer niður í allt að 13 -15 gráður.

Við ætlum líkt og koma fram hér að ofan einungis að opna seinni 9 holur vallarins. Þær eru mun lengra komnar og eru farnar að líta vel út. Við gefum fyrri níu aðeins lengri tíma og náum vonandi að opna þær í næstu viku. Það verða gervigrasmottur á einhverjum teigum og biðjum við ykkur vinsamlegast um að nota þær. Bjarni vallastjóri, Felix, Óli og Pétur hafa unnið mikið og gott starf í allan vetur og þá sérstaklega undanfarnar vikur við það að koma völlunum okkar í gott stand fyrir sumarið. Eiga þeir stórt hrós skilið fyrir það hversu vel þetta hefur gengið hjá þeim. Við opnuðum Bakkakotið síðastliðinn laugardag og það er óhætt að fullyrða að Bakkakotið sé í virkilega góðu ástandi og það ríkir mikl ánægja hjá þeim sem hafa spilað völlinn undanfarna daga. Seinni 9 á Hlíðavelli líta vel út, góður gróandi í flötunum og allt á réttri leið þar. Kominn góður vöxtur og eru þau komin á þann stað við við treystum þeim til að taka á móti golfurum.

Golfbúðin/afgreiðslan okkar á Hlíðavelli verður opin alla daga frá kl. 8:00 til 20:00 frá og með fimmtudeginum.

Vellir klúbbsins verða áfram eingöngu opnir fyrir GM félaga.

Undanfarin ár höfum við verið með vinnudag áður en við opnum, við ætlum að geyma hann aðeins og vera með hann þegar við opnum allar 18 holurnar.

Við minnum á að æfingasvæðið okkar á Hlíðavelli er opið sem og æfingaflatirnar, hægt er að endurnýja boltalyklana frá því í fyrra hjá okkur á skrifstofunni.

Líkt og komið hefur fram þá verða breytingar hjá okkur á innskráningu í golf, nú notum við stafrænt kort sem er í golfbox appinu ykkar til þess að staðfesta rástíma. Þetta hefur gengið virkilega vel í Bakkakoti það sem af er og vonandi heldur það áfram hér á Hlíðavelli. Það eru skjáir á okkar völlum með QR kóða sem þið notið til að staðfesta ykkar rástíma. Hvernig staðfesti ég rástíma

Við tökum einnig í notkun aftur eftir smá hlé GLFR appið sem flest ykkar vonandi þekkja. Það er búið að endurbæta það talsvert og vonumst við til þess að það eigi eftir að bæta okkar þjónstu til ykkar umtalsvert og hvetjum við ykkur til þess að sækja appið og setja það upp í ykkar símum.

Smellið hér til að skoða GLFR

Í GLFR eru yfirlitsmyndir af okkar völlum ásamt nákvæmum mælingum. Vallarstarfsfólkið okkar merkir inn hvar holurnar eru á flötunum og því fáið þið ávallt nákvæma mælingu þaðan sem þið eruð að leika ykkar bolta.

Það er hægt að skrá skor fyrir allt að fjóra kylfinga í appinu og er það beintengt golfboxinu og uppfærist skorið því sjálfkrafa í forgjafarkerfið.


Innanfélagsmótaraðir GM!

Við erum aðeins seinna með þetta á ferðinni heldur en við ætluðum okkar, það er einfaldlega vegna þess að golfvellirnir okkar eru ekki að opna eins snemma og vonir stóðu til um :)

Viking deildin - skráning hafin!

Skráning er hafi og stendur yfir til miðvikudagsins 24.maí. Ef skráning fer umfram 16 lið þá verður leikin undankeppni. Dagsetning hennar verður þá auglýst að skráningartíma liðnum.

Smellið hér til að fá upplýsingar um VIKING deildina og skráningu.


Titleist holukeppnin - skráning hafin!

Meistaramót GM í holukeppni, Titleist-holukeppnin, er eitt skemmtilegasta mót ársins.

Mjög einfalt að taka þátt, þú einfaldlega skráir þig til leiks, engin undankeppni líkt og verið hefur undanfarin ár. Eftir að skráningarfrest líkur þá er dregið um það hvaða kylfingar mætast í fyrstu umferð. Keppt er í karla og kvennaflokki.

  • Leikið er með forgjöf - hámarksforgjöf er 36
  • Heimilt að leika á báðum vallarsvæðum.
  • Konur leika á rauðum teigum og karlar leika á gulum teigum.

Upplýsingar um Titleist holukeppninaSkráning í holukeppnina fer fram í golfboxinu.
Einnig er hægt að hringja í síma 5666999 og skrá sig til leiks.